08/10/2024

Strandagrímur með afrísku ívafi

Þær Viktoría Rán Ólafsdóttir á Hólmavík og Aðalbjörg Óskarsdóttir frá Drangsnesi sem eru nemar við Kennaraháskóla Íslands hafa verið í vettvangsnámi í Grunnskólanum á Hólmavík undanfarið. Það verkefni gengur út á að kenna í tvær vikur og velja sérstök þemu til að vinna með. Þær stöllur völdu Afríku sem grunnþema í kennslunni og tengdu afríska menningu inn í öll hugsanleg fög sem kennd eru í grunnskólum. Í handmennt fengu dverghagir nemendur þeirra tækifæri til að hanna og smíða magnaðar grímur með afrísku ívafi úr efni á Ströndum, en myndir af þeim má sjá hér að neðan.

Í þemavinnunni fengu nemendurnir til að mynda tækifæri til að nýta sér upplýsingatækni í náminu, kynnast tungumálum og landafræði, auk þess sem matreiðslutímar verða helgaðir afrískum réttum og borið verður saman daglegt líf í Sambíu og Íslandi. Krakkarnir hafa meðal annars unnið litla íslensk-swahilska orðabók og vinna kvikmyndaverkefni sem tengist hjálparstarfi í Afríku.

Í handmennt smíðuðu krakkarnir i 6. og 7. bekk grímur af afrískri fyrirmynd eftir að hafa leitað sér upplýsinga um þær í upplýsingatækni á netinu. Hráefnið í grímurnar er að sjálfsögðu rekaviður af Ströndum og einnig er notað í þær önnur efni sem til falla þar um slóðir, svo sem eins og hrosshár, kindahorn, kindaleggir, tennur úr sviðakjömmum, fjaðrir, þari og skeljar úr fjörunni og margt fleira. Eins og sjá má þá eru grímurnar einstakir gripir hver um sig og vekja örugglega einhverja til umhugsunar um hvort þarna sé ekki komin hugmynd að minjagripi framtíðarinnar á Ströndum. Því svo sannarlega eru þetta sérstakir gripir en margar grímurnar líkjast fornsögulegum hetjum og fornköppum í bland við galdramenn og tröll, sem Strandir eru svo kunnar af.

1

bottom

164

frettamyndir/2006/580-strandagrimur09.jpg

frettamyndir/2006/580-strandagrimur07.jpg

frettamyndir/2006/580-strandagrimur05.jpg

frettamyndir/2006/580-strandagrimur04.jpg

frettamyndir/2006/580-strandagrimur02.jpg

Ljósm.: Sigurður Atlason