11/09/2024

Viðbúnaður vegna fuglaflensu á 2. stig

Landbúnaðar-ráðuneyti hefur auglýst að farið verði á viðbúnaðarstig II í kjölfar þess að greinst hefur tilfelli fuglaflensu af H5N1 stofni á Bretlandseyjum. Auglýsingin tekur gildi þann 12. apríl til að gefa mönnum ráðrúm til að kynna sér hvað í henni felst og uppfylla þau skilyrði sem henni fylgja. Í tilkynningu frá landbúnaðarráðuneytinu segir að auglýsingin sé sett til að færa viðbúnað vegna fuglaflensu á áhættustig II, en á því stigi er talin mikil hætta á að fuglaflensa geti borist til landsins. Upplýsingar um fuglaflensu er að finna á heimasíðu Landbúnaðarstofnunarinnar. Auglýsingu landbúnaðarráðuneytis er hægt að nálgast hér að neðan.

AUGLÝSING
um tímabundnar varnaraðgerðir til að fyrirbyggja að
fuglaflensa eða Avian Influensa berist í alifugla.

1. gr. Með vísan til þess að staðfest hefur verið tilvik fuglaflensu, Avian Influensu af H5N1
stofni á Bretlandseyjum, hefur landbúnaðarráðherra að fengnum tillögum
Landbúnaðarstofnunar ákveðið að fyrirskipa eftirfarandi ráðstafanir sem nauðsynlegar eru til
að hindra útbreiðslu og til að afstýra hættu og tjóni af völdum sjúkdómsins.

2. gr. Öllum þeim sem halda alifugla (hænsnfugla, kalkúna, endur og gæsir) er skylt að fylgja eftirfarandi reglum:
a. Allir alifuglar skulu lokaðir inni í yfirbyggðu gerði eða húsi.
b. Gerðin og húsin skulu vera fuglaheld.
c. Tryggja skal að ekkert í umhverfi húsanna, s.s. fóður, laði að villta fugla.
d. Setja skal hatta á allar loftræstitúður.
e. Setja skal fuglanet fyrir allar loftræstitúður, op og glugga á þeim húsum þar sem alifuglar eru haldnir og skal öllum óviðkomandi bannaður aðgangur að húsinu með sérstökum merkingum á hurðum þess.
f. Allir sem sinna fuglunum skulu nota hlífðarfatnað (galla og stígvél), sem eingöngu er notaður þar, og skulu þeir einnig þvo og sótthreinsa hendur fyrir og eftir umhirðu fuglanna.
g. Óheimilt er að hafa önnur dýr hjá fuglunum, þ.m.t. hunda og ketti.
h. Vatn skal uppfylla kröfur gildandi reglugerðar um neysluvatn.
i. Gæta skal fyllsta hreinlætis í umgengni við fuglana og fylgja almennum hreinlætisreglum.

3. gr. Finnist tveir eða fleiri dauðir fuglar á sama stað skal tilkynna um það án tafar til Landbúnaðarstofnunar (héraðsdýralæknis), sem tekur ákvörðun um aðgerðir.

4. gr. Landbúnaðarstofnun hefur eftirlit með framkvæmd þessara reglna og getur veitt undanþágur frá þeim við sérstakar aðstæður, að því tilskyldu að smitvarnir séu nægilega tryggðar með öðrum hætti að mati stofnunarinnar.

5. gr. Verði eigandi eða umráðamaður alifugla ekki við tilmælum Landbúnaðarstofnunnar um aðgerðir samkvæmt auglýsingu þessari getur landbúnaðarráðherra með vísan til 21. gr. laga nr. 25/1993 um dýrasjúkdóma og varnir gegn þeim, fyrirskipað bótalausa förgun eða eyðingu fuglanna að fengnum tillögum Landbúnaðarstofnunnar.
Brot gegn auglýsingu þessari varða sektum eða fangelsi allt að 2 árum. Með mál vegna brota skal farið að hætti opinberra mála.

6. gr. Um alifuglabú gilda einnig ákvæði reglugerðar nr. 251/1995 um aðbúnað og sjúkdómavarnir á alifuglabúum og útungunarstöðvum, með síðari breytingum.
Auglýsing þessi er sett með vísan til 8. gr. laga nr. 25/1993 um dýrasjúkdóma og varnir gegn þeim, ásamt síðari breytingum og tekur gildi 12. apríl 2006.

Landbúnaðarráðuneytinu, 6. apríl 2006.