Categories
Frétt

2020 – ár hinna miklu sviptinga

Árið 2020 hefur verið einkennilegt í meira lagi. Viðburðir og mannamót hafa verið meira og minna slegin af út af kórónaveirunni og menningarlífið og ferðaþjónustan í lamasessi. Samkomutakmarkanir hafa sett svip á mannlíf, bæði vorið 2020 og haustið.

Það má svo sannarlega segja að á slíkum óvissutímum sé allt tekið til endurskoðunar. Það á meðal annars við um vefinn strandir.is þar sem nýtt líf og breytt mun kvikna, fyrr en síðar. Gamli fréttavefurinn sem var á þeirri vefslóð frá 2004, heyrir hins vegar sögunni til.

Categories
Frétt

Strandapósturinn er kominn út

Strandapósturinn 52. árgangur er kominn út og í dreifingu. Að venju er fjöldinn allur af áhugaverðum greinum í Strandapóstinum, um sögu og samtímann á Ströndum, einnig frásagnir af starfi innan Átthagafélags Strandamanna sem gefur póstinn út. Forsíðan er prýdd glæsilegu olíumálverki eftir Guðlaug Bjarnason af hákarlahjalli við Gautshamar og galdrastaf sem ætlað er að efla fiskveiðar hjá þeim sem hann brúkar.

Categories
Frétt

Vor í lofti

Það er vor í lofti á Ströndum, sauðburður stendur nú sem hæst og farfuglarnir allflestir komnir til landsins. Á meðfylgjandi mynd stendur steindepill á staur, en spóinn er nýlega mættur til leiks og krían er komin í Trékyllisvík og víðar. Fréttaritari strandir.saudfjarsetur.is hefur farið í nokkur fjörurölt undanfarna daga og fest fugla á filmu.

Categories
Frétt

Fagurfræði hversdagsins mánudaginn 16. des.

Úr dagbók Jóns gamla Jónssonar sem bjó alla tíð við Steingrímsfjörðinn

Kvöldvaka á Sauðfjársetri á Ströndum mánudagskvöldið 16. desember 2019. Yfirskrift hennar er Fagurfræði hversdagsins og þar verður sagt frá persónulegum heimildum frá 19. öld, bréfum og dagbókum!

Þau sem flytja erindi á kvöldvökunni eru Rósa Þorsteinsdóttir þjóðfræðingur, Davíð Ólafsson sagnfræðingur, Jón Jónsson þjóðfræðingur og Eiríkur Valdimarsson þjóðfræðingur.

Sauðfjársetrið hefur á boðstólum heitt súkkulaði, jólaköku og kleinur, til að maula á með fróðleiknum.

Kvöldvakan er haldin í samvinnu Sauðfjárseturs á Ströndum, Rannsóknaseturs HÍ á Ströndum – Þjóðfræðistofu og Fjölmóðs – fróðskaparfélags á Ströndum. Viðburðurinn er styrktur af Uppbyggingarsjóði Vestfjarða og Safnasjóði.

Categories
Frétt Uncategorized

Íslandsmótið í hrútadómum sunnudaginn 18. ágúst

Sumir koma langt að á Hrútaþuklið – Hörður á Böðmóðsstöðum þuklar hrútinn.

Mikið hefur verið um að vera á Sauðfjársetrinu við Steingrímsfjörð á Ströndum í sumar, margvíslegar uppákomur og viðburðir. Framundan er svo stærsta samkoma ársins, Íslandsmeistaramótið í hrútadómum eða hrútaþukli, eins og gárungarnir á Ströndum segja. Það verður haldið sunnudaginn 18. ágúst og hefst kl. 14:00 á Sauðfjársetrinu. Jafnan er þar fjölmenni, gleðskapur og góð þátttaka í keppninni, bæði í flokki þaulreyndra hrútadómara og líka í flokki óvanra hrútaþuklara. Þessi íþróttagrein hefur smám saman náð almennri hylli landans, eftir að hún var fundin upp á Ströndum og Sauðfjársetrið hóf að halda slík mót árið 2003.  

Hrútadómarnir sjálfir fara þannig fram að ráðunautur fer fyrir dómnefnd sem metur fjóra íturvaxna og dálítið misjafna hrúta með nútíma tækjum og tólum. Nýjustu tækni og vísindum er þannig beitt til að raða þeim í gæðaröð fyrirfram. Síðan reyna keppendur sig við meta sömu hrúta með hendurnar og hyggjuvitið að vopni og reyna að komast að sömu niðurstöðu og dómararnir. Þeir vönu gefa hrútunum stig fyrir ýmsa eiginleika, hryggurinn skiptir náttúrulega miklu máli og lærin sem eru tvö á hverjum hrút, þótt þeir séu með fjóra fætur. Bændur gjörþekkja það stigakerfi sem notað er við þetta mat.

Sverrir Guðbrandsson heldur í hrút og Jón Stefánsson sem er íhaldsmaður alla daga ársins í annan, fjær á myndinni.

Þeir sem óvanir eru eða jafnvel hræddir við hrútana, láta hins vegar duga að raða hrútunum í sæti frá eitt til fjögur og færa síðan rök fyrir máli sínu á keppnisblað sem skilað er inn til dómnefndar. Röksemdirnar mega vera hvernig sem er, bæði til gamans eða í fúlustu alvöru. Oft sér maður að hegðun, atferli og framkoma hrútanna á keppnisstað hefur mest áhrif á keppendur í þessum flokki. Sumir líta líka til fjögurra íhaldsmanna sem heldur hver í sinn hrút og láta útlit þeirra og eiginleika hafa áhrif á matið. Veglegir vinningar eru í boði fyrir sigurvegara í báðum flokkum.

Á síðasta ári sigraði Ragnar Bragason á Heydalsá á Ströndum í keppninni í vana flokknum og í öðru sæti varð Elvar Stefánsson í Bolungarvík. Þriðji varð Guðmundur Gunnarsson á Kjarlaksvöllum í Dölum. Sigurvegarinn í flokki vanra fær verðlaunagripinn Horft til himins til varðveislu í eitt ár, en hann er tileinkaður Brynjólfi Sæmundssyni sem var ráðunautur á Ströndum í um 40 ár.  

Það merkilega er að sumir hafa betri tök á þuklinu en aðrir. Þannig hefur Kristján Albertsson á Melum í Árneshreppi oftast unnið keppnina, alls fjórum sinnum 2006, 2007, 2012 og 2013. Björn Torfason á Melum í Árneshreppi hefur einnig sigrað tvisvar og Guðbrandur Sverrisson á Bassastöðum í Kaldrananeshreppi. Einu sinni hefur kona sigrað í hrútaþuklinu, Hadda Borg Björnsdóttir á Þorpum í Standabyggð. Stundum hefur Íslandsmeistarinn líka verið búsettur utan Stranda, en það líkar Strandamönnum ekki eins vel. Þá keppast heimamenn um vinna titilinn og verðlaunagripinn til baka og halda honum á svæðinu. Í hópi þeirra sem hafa unnið tvisvar er Björn Þormóður Björnsson á Ytra-Hóli í Austur-Húnavatnssýslum. Hann hefur góð tök á þuklinu og er erfiður við að eiga fyrir Strandamenn.

Á hrútadómunum verður Sauðfjársetrið einnig með sitt árlega líflambahappadrætti, en þá eru hágæða líflömb frá úrvals bændum á Ströndum í vinninga. Hægt er að taka þátt og kaupa miða í gegnum skilaboð á Facebook-síðu Sauðfjársetursins eða hjá Ester í síma 693-3474, ef menn komast ekki á svæðið. Að venju verður kjötsúpa á boðstólum og kaffihlaðborð allan liðlangan daginn.

Oft er líf og fjör á Hrútadómunum
Categories
Frétt Uncategorized

Náttúrubarnahátíð 19.-21. júlí

Fjölskylduhátíðin Náttúrubarnahátíð á Ströndum verður haldin í þriðja skiptið helgina 19.-21. júlí nú í sumar. Á hátíðinni fá allir gestir, bæði börn og fullorðnir, kjörið tækifæri til að finna eða rækta sitt innra náttúrubarn. Það er Náttúrubarnaskólinn sem stendur fyrir hátíðinni en hann hefur verið starfræktur síðan sumarið 2015. Náttúrubarnaskólinn stendur fyrir fjölbreyttum námskeiðum yfir sumartímann og miðar að því að fræða börn á öllum aldri um ólíkar hliðar náttúrunnar á námskeiðum sem snúast um útivist og náttúruskoðun þar sem þau læra með því að sjá, snerta og upplifa viðfangsefnin.

Náttúrubarnaskólinn er starfræktur innan vébanda Sauðfjársetursins í Sævangi rétt sunnan við Hólmavík, og þar verður hátíðin haldin. Dagrún Ósk Jónsdóttir þjóðfræðingur hefur séð um náttúrubarnaskólann frá upphafi og skipulagningu hátíðarinnar. „Þetta gengur bara frábærlega og við erum æsispennt, eins og alltaf,“ segir Dagrún Ósk. „Við reynum alltaf að hafa fjölbreytta dagskrá sem miðast að því að fræðast um náttúruna og hafa gaman og það tókst bara mjög vel, þó ég segi sjálf frá. Svo fengum við veglega styrki frá Barnamenningarsjóði og Uppbyggingasjóði Vestfjarða sem gerir okkur kleift að hafa ókeypis aðgang að hátíðinni í ár“ bætir Dagrún við. 

Hátíðin hefst á föstudegi með fuglaskoðun og síðan setningarathöfn og veðurgaldri. „Veðurgaldurinn á að kalla fram sólskin og gott veður, þetta er svona hálfgerður dans. Hann hefur ekki brugðist okkur ennþá enda allt uppfullt af göldrum hérna á Ströndunum “ segir Dagrún og hlær. 

Um helgina verða svo margir fjölbreyttir viðburðir sem flétta saman skemmtun og fróðleik, til dæmis verður Jónsi í Svörtum fötum með tónleika á laugardagskvöldinu. Við fáum góða gesti úr Sirkus Íslands á sunnudeginum og svo verður náttúrubarnakviss og töfrasýning á föstudeginum. Einnig verða smiðjur tengdar útivist, hægt að fara í gönguferðir, á hestbak, í náttúrujóga og sjósund. Það verða drauga- og tröllasögur í Sagnahúsinu, leikhópurinn Miðnætti, Stjörnu-Sævar kemur í heimsókn og margt fleira.

„Ég hvet sem flesta til að kynna sér dagskrána hér í þessari slóð og koma og leika sér með okkur. Það er ótrúlega dýrmætt að fara út og leika sér saman börn og fullorðnir og skapa skemmtilegar minningar,“ segir Dagrún að lokum, en hægt er að kynna sér hátíðina nánar á Facebook síðu Náttúrubarnaskólans, á natturubarnaskoli@gmail.com eða hjá Dagrúnu í síma 661-2213.

Categories
Frétt

Sögurölt að Bjarnastöðum í Saurbæ

Frá Sögurölti í síðustu viku – Karl á Kambi segir frá á Bænhúshólnum í Gautsdal – ljósm. Jón Jónsson/strandir.saudfjarsetur.is

Næsta sögurölt Sauðfjárseturs á Ströndum og Byggðasafns Dalamanna verður í samvinnu við Hugrúnu og Guðmund bændur á Kjarlaksvöllum og verður á Bjarnastöðum í Saurbæ.

Röltið verður miðvikudaginn 26. júní kl. 19:30 frá hliðinu að Bjarnastöðum. Rölt verður um landnámsjörð Sléttu-Bjarna, skoðaðar friðlýstar hofrústir, dys Bjarna og annað sem verður á leið okkar og gefur tilefni til að stoppa við og segja sögur. Þetta er stutt og þægilegt rölt og fótafúnir geta auðveldlega sleppt þeim stutta hluta sem er á fótinn.

Dalamenn, Strandamenn, íbúar Reykhólahrepps og aðrir góðir gestir eru velkomnir í söguröltin sem eru í boði safnanna og því engin fjárútlát að taka þátt.

Categories
Frétt

Sýningum lokið á Nönnu systur

Frá æfingu í Sævangi

Leikfélag Hólmavíkur setti í vetur upp leikritið Nanna systir eftir Einar Kárason og Kjartan Ragnarsson. Leikstjóri var Skúli Gautason. Leikarar voru 10 talsins. Leikritið var frumsýnt snemma í apríl og sýnt fjórum sinnum í Sævangi og fékk góðar viðtökur. Í lok apríl var síðan farið í mikla leikferð þar sem sýndar voru fimm sýningar á jafn mörgum dögum. Sýningarstaðir í þeirri ferð voru Búðardalur, Grundarfjörður, Lyngbrekka á Mýrum, Árgarður í Skagafirði og Víðihlíð í Húnaþingi vestra.

Sýningum var svo slúttað með 10. sýningu í félagsheimilinu Árnesi í Trékyllisvík. Mæting á leikritið var ljómandi góð að þessu sinni, einkum í leikferðinni. Í Árneshreppi voru 54 í salnum, sem hlýtur einnig að teljast ljómandi gott í samfélagi þar sem 38 eiga lögheimili. Leikfélag Hólmavíkur hefur oft slúttað í Árneshreppi, ef sýningarnar eru þannig að hægt sé að ferðast með þær.

Eftir sýningu í Árgarði í Skagafirði
Categories
Frétt

Sólstafir að kvöldi 17. júní

Sólstafir yfir Hólmavík – ljósm. Jón Jónsson/strandir.saudfjarsetur.is

Hátíðahöld gengu að óskum á þjóðhátíðardaginn 17. júní á Hólmavík. Farið var í skrúðgöngu frá Íþróttamiðstöðinni og á galdratúninu voru skemmtiatriði. Það er ungmennafélagið Geislinn sem sér um dagskrána á Hólmavík þann 17. júní. Um 100 manns mættu á þjóðhátíðarkaffihlaðborð á Sauðfjársetri á Ströndum í tilefni dagsins.

Categories
Frétt

Kynning á verkefni um örnefni og þjóðtrú

Matthias við annan af tveimur Selkollsteinum í landi Bassastaða – ljósm. Jón Jónsson/strandir.saudfjarsetur.is

Þýski fræðimaðurinn Matthias Egeler er nú gestafræðimaður hjá Rannsóknasetri HÍ á Ströndum – Þjóðfræðistofu og dvelur á Ströndum við rannsóknir í hálft ár. Matthias starfar við rannsóknir hjá Stofnun um skandinavísk fræði og trúarbrögð hjá Ludwig-Maximilians háskólanum í München í Þýskalandi. Hann mun halda opinn fyrirlestur á ensku um verkefnið og rannsóknir sínar á Galdrasýningu á Ströndum þriðjudaginn 18. júní kl. 18:00 og eru öll áhugasöm velkomin.

Á Ströndum vinnur Matthias að ritun bókar um samspil landslags, trúarbragða og hins yfirnáttúrulega. Viðfangsefni bókarinnar er óvenju ríkulegur menningararfur Strandamanna sem felst í örnefnum og sögum tengdum þeim. Margir staðir eru t.d. tengdir Guðmundi biskup góða og margvíslegum yfirnáttúrulegum verum og vættum. Út frá landslaginu sjálfu reynir Matthias að skilja betur hvernig hið yfirnáttúrulega og hið heilaga er tengt landinu.

Stefnan er að væntanleg bók muni kynna þennan magnaða efnivið betur, jafnt á sviði trúarbragðafræða, þjóðfræði og örnefnarannsókna.