Categories
Frétt

Talningu lokið í Kaldrananeshreppi

 

580-sundlaug-drangs

Talningu er lokið í Kaldrananeshreppi á Ströndum, en þar var óhlutbundin kosning. Kosningin fór þannig að þeir sem flest atkvæði fengu og eru þar með aðalmenn í sveitarstjórn eru Finnur Ólafsson 47 atkvæði, Jenný Jensdóttir 38 atkvæði, Magnús Ásbjörnsson 33 atkvæði, Ingólfur Árni Haraldsson 32 atkvæði og Guðbrandur Sverrisson 31 atkvæði. Varamenn í sveitarstjórn voru kosin í þessari röð: Arnlín Óladóttir, Halldór Logi Friðgeirsson, Birna Hjaltadóttir, Margrét Bjarnadóttir og Hilmar Hermannsson. Í síðustu sveitarstjórn voru einnig Sunna Einarsdóttir og Óskar Torfason en þau gáfu ekki kost á sér að þessu sinni. Finnur og Ingólfur koma nýir inn.

Categories
Frétt

J-listinn fékk 3 í Strandabyggð

645-amst5

Niðurstaða sveitarstjórnarkosninganna er fengin í Strandabyggð, en öll atkvæði hafa verið talin. Þrír listar voru í boði. Kosningin fór þannig að E-listi Strandamanna fékk 85 atkvæði og 1 mann, F-listi Óháðra kjósenda 80 atkvæði og 1 mann, en sigurvegari kosninganna er J-listi félagshyggjufólks sem fékk 129 atkvæði og 3 menn kjörna. Auðir seðlar voru 4 og ógildir 2. Alls voru 376 á kjörskrá og af þeim greiddu 300 atkvæði sem er 79,8% þátttaka. Í sveitarstjórn Strandabyggðar samkvæmt þessu eru Jón Gísli Jónsson, Ingibjörg Emilsdóttir og Viðar Guðmundsson af J-lista, Ingibjörg Benediktsdóttir af E-lista og Haraldur V.A. Jónsson af F-lista.

Categories
Frétt

Námskeið í ullarþæfingu á Sauðfjársetrinu

645-saevangur
Þæfingarnámskeið verður haldið á Sauðfjársetrinu í Sævangi á Ströndum laugardaginn 26. október. Kennari verður listakonan Margrét Steingrímsdóttir, sem var með sýningu á þæfðum myndum á listasviðinu í Sævangi í sumar. Kennd verður undirstaða í þæfingu á ull og hver þátttakandi gerir tvo til fjóra hluti. Námskeiðið hentar einnig lengra komnum. Námskeiðið byrjar kl. 11:00 og stendur til kl. 15:00. Þátttökugjald er kr. 9.500,- innifalið er allt efni og súpa í hádeginu. Skráning á námskeiðið er hjá Ester Sigfúsdóttur framkvæmdastjóra Sauðfjársetursins í síma: 823-3324.

Categories
Frétt

Haustfagnaður sauðfjárbænda í Dölum

640-strokukind
Árlegur haustfagnaður Félags sauðfjárbænda í Dölum (FSD) verður helgina 25.-26. október með fjölbreyttri sauðfjártengdri dagskrá að hætti heimamanna. Lambhrútasýningar verða í Dalahólfi föstudaginn 25. október kl. 12 í Gröf í Laxárdal og í Vesturlandshólfi laugardaginn 26. október kl. 10 á Harrastöðum í Miðdölum. Keppt er flokkum hyrndra, kollóttra og mislitra/ferhyrndra hrúta. Í lok hvers flokks gefst mönnum tækifæri til að þukla á hrútunum og leggja sitt eigið mat á niðurstöður dómaranna. Frír aðgangur er á lambhrútasýningar.

Categories
Frétt

Sálfræðiþjónusta í Strandabyggð

645-amst5
Á vef Strandabyggðar – www.strandabyggd.is – kemur fram að sveitarfélagið hefur gert samning við Magnús Baldursson sálfræðing um sálfræðiþjónustu á vegum félags- og skólaþjónustu í Strandabyggð. Samhliða þessu býðst öllum íbúum að nýta sér þjónustu Magnúsar í heimabyggð, en einnig er hægt að sækja tíma hjá Magnúsi í Reykjavík. Þeir sem óska eftir tíma hjá Magnúsi er bent á að hafa samband við Maríu Játvarðardóttur félagsmálastjóra Stranda og Reykhólahrepps á skrifstofutíma í síma 451-3521 eða að senda henni póst í netfangið felagsmalastjori@strandabyggd.is.

Categories
Frétt

Frumkvæði og sköpun – Þorsteinn J. á Hólmavík

IMG_7233
Þorsteinn J. Vilhjálmsson heldur fyrirlesturinn Frumkvæði og sköpun í Félagsheimilinu á Hólmavík fimmtudaginn 24. október 2013 kl. 17.00-20.00. Fyrirlesturinn er haldinn að frumkvæði leikskólans Lækarbrekku og eru öll sem áhuga hafa hvött til að nýta sér þetta tækifæri. Í fyrirlestrinum ræðir Þorsteinn J. um frumkvæði og leggur út frá spurningunum: Hvað get ég gert betur í mínum aðstæðum eins og þær eru? Hverju get ég breytt, hvað get ég lagt að mörkum?

Categories
Frétt

Skilaboðaskjóðan á svið í vetur

645-leikval3
Á aðalfundi Leikfélags Hólmavíkur á dögunum var kosin ný stjórn og rætt um verkefni vetrarins. Ætlunin er að ráðast í samstarfsverkefni með Grunnskólanum og Tónskólanum á Hólmavík í vetur og til að undirbúa það völdu nemendur í skólanum þrjú leikrit og æfðu búta úr þeim undir stjórn Esterar Aspar Valdimarsdóttur tómstundafulltrúa Strandabyggðar og leiklistarkennara. Þessir bútar úr leikritunum Benedikt búálfur, Ronja ræningjadóttir og Skilaboðaskjóðunni voru svo sýndir á leikæfingu í síðustu viku og kosið um framhaldið af viðstöddum.

Categories
Frétt

Sviðaveisla í Sævangi

645-saevangur
Það verður mikið um dýrðir í Sævangi á laugardaginn, en þá verður haldin vegleg sviðaveisla á Sauðfjársetrinu. Á boðstólum verða ný svið, einnig reykt og söltuð, og sviðalappir. Í eftirmat verður blóðgrautur, fjallagrasamjólk og rabbarbaragrautur. Skemmtiatriði verða á meðan á borðhaldi stendur, söngur, uppistand og sprell. Veislustjóri er Viðar Guðmundsson. Það er Sauðfjársetur á Ströndum sem stendur fyrir sviðaveislunni, en húsið opnar kl. 19:00 laugardaginn 19. október. Borðhald hefst kl. 20:00. Miðapantanir eru hjá Ester Sigfúsdóttir framkvæmdastjóra Sauðfjársetursins í síma 823-3324.

Categories
Frétt

Aðalfundur Leikfélag Hólmavíkur á sunnudaginn

640-leik4
Á sunnudagskvöldið kl. 20:00 verður haldinn árlegur aðalfundur Leikfélags Hólmavíkur. Verður hann haldinn í félagsheimilinu á Hólmavík. Á dagskrá verða hefðbundin aðalfundarstörf og ef að líkum lætur verður drjúgur tími sem fer í umræður um verkefni vetrarins. Síðasta vetur setti Leikfélag Hólmavíkur upp gamanleikritið Makalaus sambúð sem sýnt var á Hólmavík, Búðardal, Bolungarvík og í Trékyllisvík við mikinn fögnuð þeirra sem á horfðu og viðstaddir voru.

Categories
Frétt

Kaffihúsakvöld fyrir ungt fólk

640-hnallthorur8
Í kvöld, fimmtudaginn 10. október, klukkan 20:00 verður opinn fundur og kaffihúsakvöld í Hnyðju fyrir ungt fólk í Strandabyggð. Fundurinn er haldinn að frumkvæði Ungmennaráðs Strandabyggðar. Markmið fundarins er að fólk á aldrinum 15-25 ára hittist, kynnist og skiptist á skoðunum og leggi um leið drög að því hvað þau vilji gera fyrir sinn aldurshóp hvað varðar tómstunda-, Íþrótta- og menningarstarf. Farið verður í leiki og framtíð ungs fólks í Strandabyggð verður rædd í kaffihúsastemmningu í Hnyðju. Allir sem geta eru hvattir til að taka með veitingar á sameiginlegt borð.