25/04/2024

Haustfagnaður sauðfjárbænda í Dölum

640-strokukind
Árlegur haustfagnaður Félags sauðfjárbænda í Dölum (FSD) verður helgina 25.-26. október með fjölbreyttri sauðfjártengdri dagskrá að hætti heimamanna. Lambhrútasýningar verða í Dalahólfi föstudaginn 25. október kl. 12 í Gröf í Laxárdal og í Vesturlandshólfi laugardaginn 26. október kl. 10 á Harrastöðum í Miðdölum. Keppt er flokkum hyrndra, kollóttra og mislitra/ferhyrndra hrúta. Í lok hvers flokks gefst mönnum tækifæri til að þukla á hrútunum og leggja sitt eigið mat á niðurstöður dómaranna. Frír aðgangur er á lambhrútasýningar.

Sviðaveisla

Sviðaveisla, hagyrðingar, skemmtun og dansleikur verður föstudaginn 25. október kl. 19:30 á Laugum í Sælingsdal. Í boði verða svið, sviðalappir og fleira. Hagyrðingar verða Kristján Ragnarsson, Jóhannes Haukur Hauksson,  Ásmundur Óskar Einarsson, Helgi Björnsson og Helgi Zimsen. Stjórnandi verður Gísli Einarsson og einnig mætir Jóhannes Kristjánsson eftirherma. Um dansleikinn sjá Vestfirðingarnir Þórunn og Halli. 16 ára aldurstakmark er á dansleikinn.  Upplýsingar um miðapantanir eru á dalir.is. Aðgangseyrir er 5.000 kr.

Reiðhallardagskrá

Sjötta Íslandsmeistaramótið í rúningi hefst kl. 14. Núverandi Íslandsmeistari í rúningi er Jóhann Hólm Ríkarðsson í Gröf í Laxárdal. Fimmta hönnunarsamkeppnin úr íslenskri ull í samvinnu við Ístex. Skráningar eru á staðnum og í ár skal hanna eitthvað til að verma háls/herðar úr íslenskri ull með frjálsri tækni. Þá munu nokkrar konur úr héraði vera með sýningu á ullarvinnslu. Hægt verður að prófa að spinna á rokk og kemba ull. Barnadagskrá, ullarvinnsla, markaður, vélasýningar og veitingasala verður og í reiðhöllinni. Reiðhöllin opnar kl. 13 og enginn aðgangseyrir.

Grillveisla

Haustfagnaðinum lýkur að vanda með grillveislu að hætti FSD í Dalabúð á laugardagskvöldið 26. október kl. 18:30.  Þar félagar úr Meistarafélagi kjötiðnaðarmanna grilla íslenskt lambakjöt. Verðlaunaafhendingar úr lambhrútasýningum, afurðahæstu ærnar og ljósmyndasamkeppni FSD.  Myndefnið er leitir, réttir og smalamennskur í Dalasýslu haustið 2013. Grín, söngur og gaman verður einnig á matseðlinum. Aðgangseyrir er 1.500 kr. Frítt er fyrir 14 ára og yngri í fylgd með forráðamönnum.

Stórdansleikur

Hefðbundinni dagskrá haustfagnaðar lýkur með stórdansleik á miðnætti þar sem Veðurguðirnir munu sjá um að halda uppi fjörinu langt fram eftir nóttu. Aðgangseyrir á dansleikinn eru 3.000 kr og 16 ára aldurstakmark.