13/09/2024

Skilaboðaskjóðan á svið í vetur

645-leikval3
Á aðalfundi Leikfélags Hólmavíkur á dögunum var kosin ný stjórn og rætt um verkefni vetrarins. Ætlunin er að ráðast í samstarfsverkefni með Grunnskólanum og Tónskólanum á Hólmavík í vetur og til að undirbúa það völdu nemendur í skólanum þrjú leikrit og æfðu búta úr þeim undir stjórn Esterar Aspar Valdimarsdóttur tómstundafulltrúa Strandabyggðar og leiklistarkennara. Þessir bútar úr leikritunum Benedikt búálfur, Ronja ræningjadóttir og Skilaboðaskjóðunni voru svo sýndir á leikæfingu í síðustu viku og kosið um framhaldið af viðstöddum.

Skilaboðaskjóðan sem byggir á bók Þorvaldar Þorsteinssonar varð þar fyrir valinu sem verkefni vetrarins og meðfylgjandi myndir eru frá sýningu nemenda í leiklistarvali á leikritsbútunum.

Í nýrri stjórn Leikfélagsins eru Einar Indriðason formaður, Salbjörg Engilbertsdóttir gjaldkeri og Ester Sigfúsdóttir ritari. Einar og Ester koma ný inn í stjórn, þó þau hafi reyndar bæði setið í stjórn félagsins áður, Einar var t.d. formaður árin 1999-2004. Salbjörg Engilbertsdóttir er gjaldkeri félagsins 16. starfsárið í röð.

Rætt var um fleiri hugsanleg verkefni vetrarins, svo sem leikhússport og stutt jólaleikrit og fleiri hugmyndir komu fram.

645-leikval7 645-leikval1 645-leikval2 645-leikval6 645-leikval5 645-leikval4

Undirbúningur fyrir val á verkefni vetrarins í samvinnu Grunnskólans, Tónskólans og Leikfélags Hólmavíkur – ljósm. Jón Jónsson.