16/10/2024

Orkubúsmenn í Árneshreppi

Eydi og Júlli við sleðannTveir menn frá Orkubúinu á Hólmavík, Eysteinn Gunnarsson og Júlíus Freyr Jónsson, komu norður í Árneshrepp á sitt hvorum snjósleðanum í dag. Erindið var að  gera endurbætur í spenniskúrnum við Bæ í Trékyllisvík, þar sem oft hefur skafið inn snjó og valdið útslætti á rafmagni hér í sveit og vonandi hefur það tekist.

Þeir félagar þurftu að bíða með að taka rafmagn af vegna áætlunarflugsins á Gjögur þar til um 15:30 og var rafmagnslaust í um eina klukkustund og korter. Á meðan beðið var gerðu þeir við stauraljósið á Finnbogastöðum sem var dottið út fyrir allnokkru, en Orkubúið sér um viðhald stauraljósanna en Árneshreppur um reksturinn. Einn ljósastaur er við hvern sveitabæ í Árneshreppi, eins og annars staðar á Ströndum.

Júlíus og Eysteinn við sleðann – ljósm. Jón G G.