12/12/2024

Ævintýri í vetrarfærðinni

Fréttaritari strandir.saudfjarsetur.is brá fyrir sig bensínfætinum í gær og brunaði frá Reykjavík til Hólmavíkur, ásamt hluta af fjölskyldunni. Lagt var upp frá Brú til Hólmavíkur klukkan 18:00 og tók ferðin þangað rúma 4 tíma. Norðan við brúna yfir Þambá og áður en kom að Slitrunum var ekið fram á Birki Þór Stefánsson í Tröllatungu þar sem hann sat fastur í heljarmiklum skafli. Höfðu bílarnir samflot þaðan, eftir að Magnús Sveinsson á Þambárvöllum hafði dregið bílinn hjá Birki lausan og Gústi frá Heiðarbæ rutt brautina.

Skafl á leið upp Ennishálsinn stöðvaði síðan aftur förina, þar til bjargvætturinn Jón Stefánsson á Broddanesi kom að leiðangursmönnum á dráttarvél með blásara. Dró hann bílinn hjá Birki úr öðrum skafli þar og síðan þeim þriðja ofan við Broddadalsá. Fréttaritari dró fram myndavélina í síðasta skaflinum, en flestir viðstaddir virtust hafa frekar gaman af þessu brasi. Rétt er að geta þess að það var líka fjöldinn allur af sköflum á leiðinni sem Birkir festi ekkert í.