25/04/2024

Ozon á sigurbraut

Föstudagskvöldið 10. febrúar fór fram á Ísafirði landshlutakeppni á Vestfjörðum fyrir söngkeppni Samfés (Samtök félagsmiðstöðva). Auk glæsilegra verðlauna fyrir fyrsta og annað sætið snerist keppnin þó fyrst og fremst um þátttökurétt í úrslitakeppni söngkeppni Samfés sem haldin verður í Mosfellsbæ 4. mars. Í ár áttu tvö atriði af Vestfjörðum þess kost að komast áfram. Fimmtán söngatriði frá félagsmiðstöðvunum í Bolungarvík, á Flateyri, Hólmavík, Ísafirði, Suðureyri og Þingeyri voru skráð í keppnina.

Fyrir hönd Ozon að þessu sinni kepptu Aðalheiður Lilja Bjarnadóttir, Elín Ingimundardóttir og Björk Ingvarsdóttir sem fluttu gamla Presleyslagarann Burning love við undirleik hljómsveitarinnar Dansband Victors. Agnes Jónsdóttir flutti lagið Fall to pieces við undirleik Bjarka Einarssonar, Vilhjálms Jakobs Jónssonar og Kristjáns Páls Ingimundarsonar. Bjarki Einarsson söngvari og gítarleikari í Dansbandi Victors lokaði svo keppninni ásamt félögum sínum með laginu Tear away. Sannast sagna stóðu allir fulltrúar Ozon sig alveg frábærlega. Að lokum stóðu Aðalheiður, Elín og Björk uppi sem sigurvegarar kvöldsins. Fram kom í máli formanns dómnefndar að atriðið þeirra hefði uppfyllt alla þá þætti sem leitað var eftir bæði hvað varðar flutning og framkomu. Einnig tók hún fram að Agnes Jónsdóttir hefði alveg átt það skilið að lenda í 3. sæti fyrir sína framgöngu eins og Ísfirðingurinn sem sætið hreppti að lokum. Það má því búast við spennandi lokakeppni í Mosfellsbæ þann 4. mars.