20/04/2024

Strandamenn sitja á hakanum

Hólmavík á Ströndum er eini þéttbýlisstaðurinn á landinu með meira en 200 íbúa og í minna en 350 kílómetra fjarlægð frá Reykjavík þar sem heilsársvegur er ekki lagður bundnu slitlagi alla leið. Hefur verið svo í fjölmörg ár. Enn eru malarvegir á Ströndum sunnan Hólmavíkur um það bil 39 km langir og skiptast í þrjá spotta, tæplega 16 km milli Prestbakka og Guðlaugsvíkur í Hrútafirði, 19 km kafla frá Bræðrabrekku í Bitru að Litla-Fjarðarhorni í Kollafirði og 4 km kafla frá Þorpum að Heydalsá við Steingrímsfjörð. Íbúafjöldinn á Hólmavík sem er fjórði stærsti þéttbýliskjarni á Vestfjörðum er 380 og vegalengdin milli Hólmavíkur og Reykjavíkur er 272 kílómetrar.

Stefnt var að því að bæta úr með vegagerð um Arnkötludal og var nýr vegur þar kominn á áætlun og átti að ljúka honum 2008. Þá hefði vegalengdin frá Hólmavík til Reykjavíkur styst um 40 km og verið komið bundið slitlag alla leið. Þessi vegagerð var því miður eitt af þeim verkefnum sem ríkisstjórnin frestaði útboði á til að slá á þenslu og verðbólgu í öðrum landshlutum. Ef orð Sturlu Böðvarssonar samgönguráðherra ganga eftir verður verkinu eftir sem áður lokið 2008 og komast þá bæði Hólmvíkingar og íbúar norðanverðra Vestfjarða á bundnu slitlagi alla leið í bæinn og jafnvel til baka aftur.

Ekki er nóg með þetta, heldur er vegagerð innan héraðs á Ströndum einnig stórkostlega á eftir sínum samtíma. Það var löngum baráttumál Fjórðungssambands Vestfjarða að nálægir þéttbýliskjarnar á Vestfjörðum væru tengdir saman með bundnu slitlagi. Nú eru liðin svo mörg ár síðan það náðist, alls staðar nema á Ströndum, að menn virðast á þessum vettvangi að mestu leyti hættir að muna eftir þessu baráttumáli. Enn eru malarvegir á alllöngum kafla milli Drangsness og Hólmavíkur, en vegalengdin á milli þessara þéttbýliskjarna við Steingrímsfjörð er 34 kílómetrar og liggur vegurinn alla leiðina með sjó og engir sérstakir erfiðleikar með vegagerð á þessu svæði.

Í þriðja lagi má nefna að Árneshreppur á Ströndum er eina 50 manna byggðin á Íslandi sem má búa við það að þangað eru ekki heilsárssamgöngur á landi. Vegurinn í Árneshrepp lokast vegna snjóa í nokkra mánuði á ári hverju, og hefur að jafnaði verið lokaður 3-4 mánuði í snjóleysinu síðustu vetur.