15/04/2024

Útsala á Upplýsingamiðstöðinni

Á morgun, fimmtudaginn 31. ágúst, er síðasti opnunardagur Upplýsinga-miðstöðvarinnar á Hólmavík þetta árið. Í tilefni af því verður haldin útsala á þeim vörum sem miðstöðin hefur til sölu, en það eru ýmis landakort og nokkrar ferðabækur frá Ferðafélagi Íslands. Allar vörurnar verða seldar með 25% afslætti. Allir sem koma geta fengið sér ókeypis ísskápssegla með merki Hamingjudaga og enn er hægt að kaupa Hamingjudagaboli í nokkrum stærðum og litum. Þá er ónefnd handverkssala Strandakúnstar, en þar er geysimikið úrval af handverki heimamanna, allt frá ullarvettlingum til heimagerðra spúna. Upplýsingamiðstöðin er opin frá kl. 9:00 til 20:00.

Starfsmenn miðstöðvarinnar vinna nú við að taka saman bæklinga og annað hafurtask sem henni fylgir, en það er álit þeirra að ferðasumarið hafi verið ágætt eftir fyrri hluta júnímánaðar. Von er á skýrslu frá miðstöðinni á næstu dögum með forvitnilegum tölum um gestakomur sumarsins og fleira í þeim dúr.