25/04/2024

Löggilding dómtúlka til Hólmavíkur

Svæðisútvarp Vestfjarða greindi frá því í dag að dómsmálaráðherra hefur sett Jón Svanberg Hjartarson, varðstjóra á Ísafirði, aðstoðaryfirlögregluþjón í lögreglunni á Vestfjörðum frá og með áramótum. Hann verður með aðsetur á Patreksfirði. Þetta er liður í þeim breytingum sem verða um áramótin, þegar lögregluliðá Vestfjörðum sameinast undir einni stjórn. Fram kom í viðtali við Kristínu Völundardóttir sýslumann Strandamanna að sýslumannsembættið á Hólmavík fái nú það verkefni að annast löggildingu dómtúlka og skjalaþýðenda í landinu.

Ekki er ljóst hvort það verkefni er til viðbótar við þau verkefni sem áður hefur verið sagt frá hér á strandir.saudfjarsetur.is að verði flutt til Hólmavíkur og haft var eftir Ásdísi Leifsdóttur sveitarstjóra Strandabyggðar. Þá var annars vegar nefnd umsjón og eftirlit með leyfisveitingum til fasteignasala og hins vegar útgáfa leyfa og eftirlit með happdrættissölu hvers konar utan stóru happdrættanna.