29/05/2024

Kryddlegnar gellur laða á Strandir

.Þær eru margar ástæðurnar fyrir því að fólk gerir sér ferð á Strandir. Oftast heyrist að stórfengleg náttúra svæðisins eða seiðar galdranna fangi gesti á svæðið en í gær komu ferðamenn í dagsferð á Strandir í þeim eina tilgangi að snæða kryddlegnar gellur á Hótel Laugarhóli í Bjarnarfirði. „Þetta fólk hafði samband við mig um hádegisbil í gær og pantaði borð, en það hafði heyrt um kryddleggnu gellurnar mínar í kaffihúsaspjalli í Reykjavík og þar sem þau höfðu ákveðið að fara í flugtúr um daginn þá flugu þau til Hólmavíkur í blíðviðrinu", sagði Matthías Jóhannsson hótelstjóri á Laugarhóli í stuttu spjalli við tíðindamann strandir.saudfjarsetur.is. Matthías sá til þess að gestirnir fengu far frá flugvellinum norður í Bjarnarfjörð þar sem þeir síðan nutu fordrykkjarins í náttúrulega heita pottinum meðan hann útbjó gómsætar gellurnar og meðrétti.


„Þau komu síðan beint inn í matsal hótelsins og tóku hraustlega til matar síns áður en þau flugu suður aftur, sæl og ánægð", segir Matthías og segir matseðilinn á Laugarhóli hafa á að skipa fjölbreytta og gómsæta fisk- og kjötrétti sem kitli bragðkirtlana út í hið óendanlega. „Keila á báli er mjög vinsæl, segir Matthías, „það er eldsteikt keila með spínatkremi og Eilífðarlambið er auðvitað sígilt og svo er úr að að velja nokkrum ljúffengum eftirréttum".

.
Slappað af í heita pottinum á Klúku meðan veislan er undirbúin

.
Gestirnir snæddu kryddlegnar gellur

.
Ferðalangar halda heim á leið eftir góða dagstund á Ströndum