14/09/2024

Stóra upplestarkeppnin á Hólmavík

Stóra upplestarkeppnin fór fram á Ströndum í þriðja sinn í gær, en auk þess hafa Strandamenn einu sinni farið til keppni á Reykhólum. Stóra upplestarkeppnin fer fram víðs vegar um land og keppa nemendur 7. bekkja í grunnskólum á lokahátíð í hverju héraði. Að þessu sinni tóku þátt tólf nemendur úr þremur grunnskólum í Strandasýslu; Grunnskólanum á Hólmavík, Grunnskólanum á Drangsnesi og Grunnskólanum á Borðeyri. Foreldrar nemendanna á Hólmavík sáu um kaffiveitingar, en kókómjólk var gefin af Mjólkursamsölunni. Segja má að Borðeyringar hafi komið, séð og sigrað þetta árið, því þær þrjár stúlkur sem þaðan komu röðuðu sér í þrjú efstu sætin.

Í fyrsta sæti var Harpa Ósk Lárusdóttir, í öðru sæti Jóhanna Herdís Sævarsdóttir og í þriðja sæti Ingheiður Brá Mánadóttir. Þá fékk Hafþór Torfason í grunnskólanum á Hólmavík sérstök verðlaun fyrir túlkun. Dómnefndina skipuðu Sigurður Atlason, Sigríður Óladóttir, Arnar S. Jónsson, Baldur Sigurðarson frá Röddum, samtökum um vandaðan upplestur og framsögn og Guðríður Stefánsdóttir frá Heimili og skóla. Guðmundur B. Magnússon sparisjóðsstjóri afhenti vinningshöfum peningaverðlaun sem gefin eru af Sparisjóðnum.

Tónlistaratriði voru flutt í hléi af þeim Agnesi Jónsdóttur sem söng lag úr leikritinu Þið munið hann Jörund og Dagrúnu Kristinsdóttur og Stellu Guðrúnu Jóhannsdóttur sem léku á harmónikku og flautu. Fjölmenni horfði á keppnina og voru viðstaddir sammála um að allir krakkarnir sem þátt tóku hefðu staðið sig sérstaklega vel.

Myndin er af stúlkunum í þremur efstu sætunum ásamt Kristínu skólastjóra og Katrínu kennara frá Borðeyri – ljósm. Kristín Sigurrós Einarsdóttir