25/04/2024

Baráttufundur eldri borgara

“Velferðarmálin í lag – bætum kjör eldri borgara”
Aðsend grein: Guðbjartur Hannesson
Vanræksla ríkisstjórnarinnar í málefnum eldri borgara
Nýlega hélt Félag eldri borgara í Borgarbyggð baráttufund á Hótelinu í  Borgarnesi, þar sem fulltrúar stjórnmálaflokkanna og fleiri kynntu stefnu sína í málefnum eldri borgara.  Fjölmenni var á fundinum og augljóst að eldri borgarar telja verulega á sig hallað varðandi hlutdeild í bættum lífskjörum í landinu. 

Ríkisstjórnin hefur vanrækt málefni eldri borgara og þráast við að viðurkenna nauðsynlegar og sjálfsagðar  breytingar.  Frambjóðandi Framsóknarflokksins lýsti því yfir að það verði að skoða málin og fulltrúi Sjálfstæðisflokksins sagði að reyna þyrfti að ná sátt um málefni eldri borgara.  Nú, rétt fyrir kosningar, sýna ríkisstjórnarflokkarnir þannig lit og lofa breytingum að loknum kosningum. Getum við treyst ríkisstjórnarflokkunum?  Ætlast þeir til að við gleymum hverjir hafa setið í ríkisstjórn s.l. tólf ár?  Gleyma þeir ekki að ríkisstjórnin hefur haft þrjú kjörtímabil til að bæta kjör eldri borgara, en lítið gert!  Það þarf nýja ríkisstjórn til að tryggja breytingar, ríkisstjórn sem setur málefni fólks framar fjármagninu, ríkisstjórn sem setur velferðarmálin í forgang. 

Ellert B. Schram, formaður félags eldra Samfylkingarfólks 60+, kynnti á fundinum eftirfarandi áherslur Samfylkingarinnar í málefnum aldraðra undir kjörorðinu “Velferðarmálin í lag – bætum kjör eldri borgara”. 

1.                  Lífeyrir dugi fyrir framfærslu.
Ellilífeyrir, tekjutrygging og heimilisuppbót samkvæmd Tryggingastofnun kr. 126.537.-, en að frádregnum skatti er upphæðin kr. 113.488.-  Hver getur lifað af slíkum tekjum?  Lífeyrir hefur ekki fylgt launavísitölu og er því brýnt að stórhækka lífeyrinn svo hann  verði sem næst framfærslukostnaði.

2.                  Frítekjumark lífeyrisþega verði hækkað og nái jafnt til lífeyristekna og atvinnutekna.
Nýbúið er að hækka frítekjumarkið í 25.000.- kr á mánuði. Við teljum það ekki nóg og teljum að eldri borgurum eigi að vera heimilt að hafa allt að kr. 100.000.- tekjur á mánuði án þess að greiðslur almannatrygginga skerðist.  Tryggja þarf sveigjanlegri starfslok í samræmi við óskir eldri borgara.

3.                  Skattar á lífeyristekjur lækki í 10%
Lífeyrissjóðstekjur eru ævisparnaður lífeyrisþega og teljum við því að skattleggja eigi þær tekjur eins og fjármagnstekjur í stað nær 36% skatts nú.

4.                  Stórátak í byggingu hjúkrunarheimila – eyðum biðlistunum
Takmörkuð heimahjúkrun og biðlistar eftir hjúkrunarrýmum eru smánarblettur á íslensku samfélagi.  Samfylkingin mun auka frelsi aldraðra til að velja sér þjónustu við hæfi, auka heimahjúkrun, tryggja nægt framboð sérbýla á hjúkrunar- og dvalarheimilum og útrýma biðlistum eftir hjúkrunarrýmum.  Samfylkingin vill að Framkvæmdasjóður aldraðra renni að fullu til þessa uppbyggingarstarfs, eins og lög gera ráð fyrir, en ekki aðeins að hluta eins og nú er.

5.                  Skattleysismörk verði hækkuð í samræmi við launabreytingar
Ein helsta skýring á auknu misrétti á Íslandi er að skattleysimörk hafa ekki fylgt launavísitölu.  Þetta þarf að laga í áföngum og þannig tryggjum við eldri borgurum kaupmáttaraukningu í samræmi við aðra.

6.                  Tekjur maka skerði ekki tryggingarbætur ellilífeyrisþega
Ef Samfylkingin kemst til valda ætlar hún að afnema tengingu lífeyrisgreiðslna við tekjur maka.  Lífeyrisgreiðslur eiga að vera persónubundinn réttur, óháðum tekjum annarra.

7.                  Málefni aldraðra verði flutt til sveitarfélaga
Til þess að þjónusta við eldri borgara verði skilvirkari  þarf hún að vera á einni hendi.  Nú þurfa eldri borgarar að sækja þjónustu til fjölmargra mismunandi stofnana á vegum ríkis og bæja.  Þessu þarf að breyta.  Það er eðlilegast að umsjón með málefnum eldri borgara verði færð til sveitarfélaga, í samræmi við vilja íbúa, enda fylgi nauðsynlegar tekjur með.

8.                  Stofnað verði embætti umboðsmanns aldraðra
Eldri borgarar þurfa að hafa málsvara innan stjórnsýslunnar.  Sérstakur umboðsmaður aldraðra á að sinna réttindamálum þeirra og vekja athygli á stöðu þeirra og kjörum.

Fram kom á fundinum einlægur vilji Borgarbyggðar að bæta þjónustuna við aldraða, m.a. með viðbyggingu og fjölgun hjúkrunarrýma.  Sama dag kom yfirlýsing heilbrigðisráðherra um fjölgun hjúkrunarrýma á næsta kjörtímabili.  Um er að ræða endurnýtt loforð, sem einnig var gefið fyrir síðustu kosningar og fylgir listi yfir hvar á að fjölga rýmum.  Vestlendingar eru þar hvergi á blaði og í NV-kjördæmi einungis reiknað með 10 rýmum í Ísafjarðarbæ.  Betur má ef duga skal, tryggja þarf að úrbætur hér í kjördæminu öllu verði miklu fyrr og í samræmi við óskir heimamanna. 

Það er skylda okkar allra að tryggja öldruðum áhyggjulaust ævikvöld.  Koma þarf  til móts við mismunandi þarfir eldri borgara, fjárhagslega og félagslega, varðandi búsetuúrræði, heimaþjónustu og hjúkrun.  Tökum undir kröfu Landssambands eldri borgara um “Þjóðarsátt um afkomu aldraðra”.

Guðbjartur Hannesson,
skipar 1. sæti Samfylkingarinnar í NV-kjördæmi.