11/09/2024

Framlögin hækka við sameiningu

Samkvæmt upplýsingum frá Jöfnunarsjóði sveitarfélaga munu framlög til sveitarfélaganna á Ströndum hækka við sameiningu. Miðað við núverandi reglur sjóðsins myndi hækkun á framlagi vegna tekjujöfnunar og útgjaldajöfnunar nema um það bil 6,8 milljónum á ári hverju. Hækkunin stafar fyrst og fremst af verulegri hækkun á framlagi vegna fjarlægða innan sveitarfélagsins og hins vegar sérstöku framlagi til sveitarfélaga sem hefur tvo þéttbýliskjarna eða fleiri innan sinna vébanda. Þetta kemur fram í ítarlegu bréfi Guðna Geirs Einarssonar starfsmanns Jöfnunarsjóðs til strandir.saudfjarsetur.is, í tilefni af frétt hér á vefnum um liðna helgi og umræðu á spjalltorginu.

Niðurstaða útreiknings á fjárhagslegum áhrifum sameiningar á tekjujöfnunar- og útgjaldajöfnunarframlög til sveitarfélaganna Árneshrepps, Kaldrananeshrepps, Hólmavíkurhrepps og Broddaneshrepps er jákvæð.

Sameiningin leiðir af sér hagstæðari útreikning er nemur 6,8 milljónir árlega miðað við forsendur ársins 2004. Þessi framlög myndu því hækka strax við sameiningu, en ekki vera óbreytt til sameinaðs sveitarfélags næstu árin. Þau myndu heldur ekki lækka 3-4 árum eftir sameiningu. Sú regla að framlögin haldist óbreytt í 4 ár, á aðeins við um þau sveitarfélög þar sem útreikningar á tekjujöfnunar- og útgjaldajöfnunarframlagi sýnir neikvæða niðurstöðu. Um það er ekki að ræða á Ströndum.

Í bréfi Guðna Geirs kemur ennfremur fram að rétt sé að samkvæmt ársreikningum 2004 sýni bráðabirgðaútreikningur hans á skuldajöfnunarframlagi til sveitarfélaganna á Ströndum, að líklega yrði ekki um að ræða slíkt framlag til sveitarfélaganna á svæðinu í kjölfar sameiningar. Hins vegar verði slíkt reiknað út að nýju út frá reikningum ársins 2005 og ef staðan hefur versnað hjá einstökum sveitarfélögum á milli ára gæti slíkt breyst.

Greiðslur til að mæta eðlilegum kostnaði sveitarfélaganna á Ströndum vegna könnunar á hagkvæmni sameiningar, kynningar á sameiningartillögum og framkvæmd atkvæðagreiðslu nema tæpum 3 milljónum – ef stofnað hefur verið til slíks kostnaðar við þessa þætti. Þetta framlag er óháð niðurstöðu kosninganna. Verði af sameiningu sveitarfélaganna kemur einnig til greiðsla úr Jöfnunarsjóði vegna sameiningar á bókhaldi sveitarfélaganna að upphæð 500 þúsund.

Þá eiga Strandamenn kost á stuðningi frá Jöfnunarsjóði vegna annarra þátta sem tengjast sameiningu sveitarfélaganna, þróun á stjórnsýslu og þátttöku í stofnkostnaði. Annars vegar er um að ræða ákvæði er heimilar aðkomu sjóðsins að framkvæmdum við grunnskóla- og leikskólamannvirki sem taldar eru nauðsynlegar til endurskipulagningar í skólahaldi í kjölfar sameiningar. Hins vegar eru um að ræða ákvæði er heimilar sjóðnum að koma að nauðsynlegri þróun á stjórnsýslu í nýju sveitarfélagi í allt að fimm ár frá sameiningu.

Loks vill Guðni Geir Einarsson, sérfræðingur hjá Jöfnunarsjóði sveitarfélaga, koma því á framfæri þótt það komi Ströndum ekki beinlínis við, að talan 100 milljónir króna í skuldajöfnunarframlag til Stykkishólms- og Snæfellsbæja sem nefnd hefur verið á spjallinu á strandir.saudfjarsetur.is sé röng og ekki frá starfsmönnum Jöfnunarsjóðs komin. Endanlegur útreikningur þess framlags fer fram á grundvelli ársreikninga ársins 2005 ef þessi sveitarfélög sameinast.