04/05/2024

Strengur og Hringfjórðungur á Hólmavík

Lagaflokkurinn Strengur eftir Tómas R. Einarsson og mynd- og tónverkið Quadrant eftir Jón Sigurpálsson verða flutt á tónleikum í Bragganum á Hólmavík á fimmtudagskvöld og hefjast þeir klukkan 21:00. Quadrant eða Hringfjórðungur er mynd- og tónverk, samið fyrir slagverksleikara, fimm blindramma og málarabretti. Það var frumflutt í Amsterdam 1983 og síðan í Tókíó nokkrum árum síðar en hefur aldrei verið flutt á Íslandi. Höfundurinn er Jón Sigurpálsson myndlistarmaður og safnvörður á Ísafirði en hann hefur fengist við tónlist síðan á unglingsárum. Matthías MD Hemstock flytur verkið.

Lagaflokkurinn Strengur, fyrir kontrabassa, slagverk, vatnshljóð og vídeó var frumfluttur á Listahátíð í Reykjavík í maí sl. og hlaut frábærar viðtökur. Tómas R. Einarsson samdi tónlistina og spilar á kontrabassa, Matthías MD Hemstock sér um slagverk og þriðji meðlimurinn í bandinu eru svo ár, lækir, stöðuvatn og haf af ættarslóðum Tómasar, meðal annars við Steingrímsfjörð á Ströndum. Vatnshljóðin leika undir og spila með þeim félögum. Strengur kom út á geisladiski og DVD í vor og hefur fengið afar góða dóma.

 Frá þessu er greint á bb.is.