19/09/2024

Ekkert Idol-kvöld á Hólmavík

Frá fyrsta Idol-kvöldinuEkki verður haldin Idol-skemmtun á Hólmavík nú á föstudaginn. Tvær síðustu helgar hafa Strandamenn komið saman í Bragganum og skemmt sér við að horfa á keppnina og hvetja Heiðu Ólafs frá Hólmavík til dáða. Að sögn skipuleggjenda skemmtunarinnar bárust sýslumanni Strandamanna kvartanir frá foreldrum á Hólmavík eftir fyrsta kvöldið um að börn og unglingar innan við 18 ára hefðu verið á staðnum án forráðamanna.

Í framhaldi af því var börnum og unglingum meinaður aðgangur að skemmtuninni að kröfu sýslumanns, nema þeir væru í fylgd foreldra sinna seinni föstudaginn. Börnum sem komu í fylgd annarra ættingja sinna eða vinafólks var vísað frá af dyravörðum sem gerð var krafa um að væru á staðnum.

Bragginn er með gilt skemmtanaleyfiBragginn á Hólmavík hefur gilt vínveitinga- og skemmtanaleyfi og þar er seldur bjór þegar skemmtanir eru á staðnum. KB-banki á Hólmavík og Sparisjóður Strandamanna höfðu styrkt Idol-skemmtunina með því að greiða fyrir leyfi frá Stöð 2, eigendur Braggans lánuðu húsnæði endurgjaldslaust og Galdrasýning á Ströndum og Sauðfjársetur á Ströndum lánuðu tæknibúnað sem þurfti.

Sigurður Marinó Þorvaldsson og Arnar S. Jónsson sem skipulögðu skemmtunina að eigin frumkvæði segja í samtali við strandir.saudfjarsetur.is að þeir séu afar svekktir með að ekki sé hægt að halda Idol-kvöld á Hólmavík næsta föstudag. Aðrir heppilegir salir liggi ekki á lausu og í félagsheimilinu á Hólmavík sé undirbúningur fyrir Góugleði á laugardeginum löngu hafinn.

Arnar segir að þess utan sé fáránlegt að gera kröfu um að til dæmis 15-18 ára unglingar komi í fylgd foreldra sinna á saklausa fjölskylduskemmtun sem lýkur fyrir 11:00 að kvöldi. Bæði kvöldin sem haldin hafi verið hafi farið einstaklega vel fram og verið til sóma fyrir íbúa á svæðinu.

Arnar segir trúlegt að aðgerðir lögreglu séu nákvæmlega samkvæmt laganna bókstaf, en þykir málið allt einkennast af skorti á umburðarlyndi: „Samkvæmt þessu ætti fólki yngra en 18 ára líka að vera bannað að koma á matsölustaði sem hafa vínveitingaleyfi eftir klukkan 20:00 á kvöldin, nema í fylgd með foreldrum. Ég veit ekki um neinn stað á landinu þar sem slíkri reglu er framfylgt."

Frá fyrsta Idol-kvöldinu í Bragganum – ljósm. Kristín Einarsdóttir