01/05/2024

Bæklingum og upplýsingum safnað saman

Sædís Í fréttatilkynningu frá Upplýsingamiðstöð ferðamála á Hólmavík kemur fram að nú er verið að safna saman kynningarbæklingum ferðaþjóna og annarra fyrirtækja á Ströndum fyrir sumarið. Lagerinn af bæklingum ferðaþjóna á Ströndum kláraðist að mestu leyti á ferðasýningunni í Fífunni á dögunum. Nú er framundan að dreifa bæklingum fyrir sumarið á aðrar Upplýsingamiðstöðvar og eru menn því beðnir um að koma lager af sínum bæklingum upp á 2-500 eintök til Upplýsingamiðstöðvarinnar á Hólmavík. 

Hægt er að póstsenda bæklinga á Upplýsingamiðstöðina, Félagsheimilinu, 510 Hólmavík, skilja þá eftir í bæklingarekka miðstöðvarinnar í Söluskála N1 á Hólmavík eða skilja þá eftir á skrifstofu Strandagaldurs og Þjóðtrúarstofu í gamla Kaupfélagshúsinu við Höfðagötu á Hólmavík. Vilji menn vita um lagerstöðuna fyrst er rétt að hafa samband við Upplýsingamiðstöðina í sima 451-3111. 

Eins er ítrekuð beiðni til ferðaþjóna um að kíkja á upplýsingar um þá sjálfa á vef Upplýsingamiðstöðvarinnar – www.holmavik.is/info og senda inn viðbætur, leiðréttingar og athugasemdir á info@holmavik.is. Uppfærsla stendur nú yfir og allar athugasemdir sem borist hafa eru settar inn tafarlaust.