23/04/2024

Æðarungarnir komnir á flot

Fyrstu æðarungarnir sáust á floti hér við Steingrímsfjörð síðasta daginn í maí og síðan hefur þeim farið fjölgandi hægt og sígandi. Enn eru þó nokkrar kollur sem liggja sem fastast á eggjum sínum og hafa verpt seint. Tíðindamaður strandir.saudfjarsetur.is fór í fjörurölt í góða veðrinu í gær til að sækja æðardún úr yfirgefnum hreiðrum. Ungarnir eru komnir á flot innan við sólarhring eftir að þeir koma úr egginu. Kollurnar sem enn liggja á eggjunum eru tiltölulega gæfar og vildu ólmar láta mynda sig og það er gaman að rölta í rólegheitum um varpið.

Æðarfuglinn er einkvænisfugl. Kollan er tryggari aðilinn í sambandinu og hún þolir illa nærveru annarra en maka síns. Varptíminn hefst venjulega um miðjan maí. Æðarfuglar eru félagslyndir og kollurnar verpa í nágrenni við aðra fugla, að jafnaði 4-6 eggjum. Blikinn verndar konu sína í varpinu, en fer síðan til að fella fjaðrir eftir að ungarnir eru komnir úr eggjunum. Þá er víða hægt að sjá stóra hópa af blikum hafa það náðugt í fjörunni. Æðarungarnir koma flestir úr eggjum um miðjan júní.
 
Þegar ungarnir líta dagsins ljós passar kollan upp á þá fyrst í stað, leiðir þá á góða fæðustaði og varar þá við hættum. Stundum hjálpa aðrar kollur við uppeldið. Fóstrurnar eru geldfuglar sem taka barnapíuhlutverkið að sér með glöðu geði og taka stundum uppeldið alveg í sínar hendur.
Dúnninn sem æðarfuglinn notar til hreiðurgerðar er verðmætur. 60 hreiður gefa árlega um eitt kíló af dún, sem einkum er settur í sængur sem seldar eru forríkum útlendingum. Dúnninn hefur tryggt framtíð æðarfuglsins á Íslandi, því hans vegna er fuglinn alfriðaður. Stofninn er nú stærri en allra annarra andfugla samanlagt.

Ljósm. Jón Jónsson.