10/09/2024

Vitabrekkan opnuð aftur

Vitabrekkan á Hólmavík hefur verið opnuð fyrir umferð að nýju, en í sumar var í gangi tilraunaverkefni með að hafa hana lokaða til 15. september og beina umferð á Vitabrautina (eða Bankabrekkuna) í staðinn. Var sú aðgerð meðal annars hugsuð til að hægja á umferðinni um gatnamót Skólabrautar og Vitabrautar, en akstur um gatnamótin hefur þótt óþarflega glannalegur hjá einstaka ökumönnum. Ekki er vitað hvort rætt hefur verið í sveitarstjórn eða Byggingar-, umferðar og skipulagsnefnd að hafa götuna lokaða til frambúðar, en slíkt myndi eflaust kalla á auknar hálkuvarnir í grennd við Grunnskólann og að snjómokstri yrði sinnt betur í Bankabrekkunni.