16/10/2024

Vinnur að útgáfu íslenskra einleikja

Kómedíuleikhúsið á Ísafirði vinnur að útgáfu á bókinni Íslenskir einleikir. Í bókinni verða 11 íslenskir einleikir allt frá Hinum fullkomna jafningja til Gísla Súrssonar. Fáir íslenskir einleikir hafa ratað á prent og því má segja að þessi útgáfa sé löngu tímabær. Kómedíuleikhúsið býður áhugafólki um leiklist og aðra að taka þátt í útgáfunni með því að vera á svonefndum Tabula gratulera lista sem verður í bókinni. "Þeir sem skrá sig sem styrktaraðilar greiða  krónur 3.500.- kr. og fá um leið eintak af bókinni, en bókin mun kosta 3.900.- kr. út úr búð, en með því að skrá sig á Tabula gratulera listann stuðla menn að eflingu leikritaútgáfu á Íslandi sem er alltaf  þakkarverð þó markaðurinn sé lítill", segir Elfar Logi Hannesson, leikari og forstöðumaður Kómedíuleikhússins.

"Það er einlæg von Kómedíuleikhússins að sem festir sjái sér fært að vera á Tabula gratulera lista í bókinni og efla um leið fátæklega íslenska leikritaútgáfu", segir Elfar en hægt er að senda staðfestingu með nafni og heimilisfangi á netfangið langimangi@snerpa.is og þar er einnig tekið á móti öllum fyrirspurnum sem varða verkefnið.

Síðustu ár hafa einleikir verið að festa sig betur í sessi á Íslandi. Margir vinsælir leikir hafa átt þátt í því m.a. Hellisbúinn, Sellófon og Gísli Súrsson. Kómedíuleikhúsið hefur einbeitt sér að einleikjalistinni frá árinu 2001 og hefur sett á svið fjóra leiki. Leikhúsið stendur einnig fyrir leiklistarhátíðinni ACT ALONE sem er helguð einleikjum og er haldin árlega í lok júní á Ísafirði. Með útgáfu á bókinni Íslenskir einleikir er Kómedíuleikhúsið að stíga skrefið enn lengra og efla um leið kynningu á þessu skemmtilega leikhúsformi.

Einleikirnir sem verða í bókinni Íslenskir einleikir eru:

Gísli Súrsson. Eftir Elfar Loga Hannesson og Jón Stefán Kristjánsson.
Glæsibæjareintölin. Eftir Benóný Ægisson.
Hinn fullkomni jafningi. Eftir Felix Bergsson.
Leifur heppni. Eftir Helgu Arnalds.
Loðinbarði. Eftir Hallveigu Thorlacius.
Of langt vestur. Eftir Hallgrím Oddsson.
Olíuþrýstingsmæling díselvéla. Eftir Guðmund Oddsson.
Óvinurinn. Eftir Hörð Torfason.
Síðasta segulband Hrapps. Eftir Guðmund Oddsson.
Sveinstykki Arnars Jónssonar. Eftir Þorvald Þorsteinsson.
Þrjár Maríur. Eftir Sigurbjörgu Þrastardóttur.