29/03/2024

Verktaki fenginn í bókhaldið

Á síðustu fundum hreppsnefndar Bæjarhrepps hefur verið tekist á um færslu á bókhaldi sveitarfélagsins og virðist sem í húfi sé starf á skrifstofu hreppsins. Sigurður Kjartansson á Hlaðhamri lagði á síðasta hreppsnefndarfundi fram tillögu um að taka í notkun nýtt bókhaldskerfi og láta vinna bókhaldið í verktöku og var sú tillaga samþykkt í atkvæðagreiðslu með nafnakalli. Liðsmenn meirihluta L-listans greiddu atkvæði með tillögunni, en H-lista fólk var á móti. Fundargerðina má finna hér á vefnum í hólfi Bæjarhrepps undir þessum tengli.

H-listi lagði fram harðorða bókun vegna þessarar afgreiðslu sem er svohljóðandi:

”Atvinnulíf er undirstaða hvers sveitarfélags. Með fjölbreytni í störfum er byggt á traustari grunni. Þetta er mönnum löngu ljóst, því er dapurlegt til þess að vita að á þeim tímum er íbúar Bæjarhrepps eru hvað ötulastir við að afla sér menntunar, meðal annars í skrifstofutækni, bókhaldi og tölvuvinnslu ásamt fleiru, skuli L-listi, meirihluti hreppsnefndar Bæjarhrepps hafa forgöngu um það að leggja niður eina skrifstofustarfið í Bæjarhreppi sem er á vegum sveitarfélagsins og kaupa í þess stað sömu vinnu í verktöku af öðru sveitarfélagi. Rökin sem að baki þessari ákvörðun liggja hljóma mjög ósannfærandi í eyrum og með það í huga, ásamt því að hafa það að leiðarljósi að það sé verðugt hlutverk hverrar hreppsnefndar að stuðla að fjölbreytni í atvinnulífi og menntun heima í héraði, lýsa fulltrúar H-lista í hreppsnefnd Bæjarhrepps sig algjörlega andvíga þessum gjörningi.”