24/07/2024

Strandamenn fróðir um Formúluna

Nú er aðeins ein keppni eftir af tímabilinu í Formúlu 1 og Fernando Alonso kominn með aðra lúkuna á heimsmeistaratitilinn eftir harða baráttu við Michael Schumacher. Schumacher þarf að hafa sig allan við í lokakeppninni í Brasilíu um helgina, en Strandamenn þurfa líka að vera á tánum – alla vega þeir sem halda úti 28 liðum í deildinni strandir.saudfjarsetur.is í Liðsstjóraleik formula.is. Deildin hefur verið í fyrsta sæti í margar vikur og hefur nú tæplega hundrað stiga forskot á næstu deild fyrir neðan. Þá er efsta lið deildarinnar, Sigurvegari 2006, í 13. sæti í heildarkeppni liða en rúmlega 2500 lið eru skráð til leiks. Liðinu er stjórnað af Jóni Gísla Jónssyni á Hólmavík, en hann er handhafi formúlubikars strandir.saudfjarsetur.is frá því í fyrra.

Þá hafði hann að orði að það væri "alveg á hreinu að þessi bikar fer aldrei í burtu úr stofunni heima hjá mér". Það er nokkuð ljóst að það gerist alla vega ekki á þessu ári.

Það verður því afar spennandi að sjá hver staðan verður eftir lokaumferðina því það er til mikils að vinna; sigursveitinni allri verður boðið (ásamt einum gesti á mann) til hátíðarkvöldverðar á Kaffi Hveró í Hveragerði og verður allt innifalið – rútuferð frá Reykjavík, hátíðarkvöldverður og skemmtiatriði. Vefurinn strandir.is mun að sjálfsögðu fylgjast vandlega með framvindu mála næstu vikuna, en áhugasamir geta líka kíkt á vefinn lidsstjori.formula.is síðla sunnudags til að skoða stöðuna og sjá hvort Strandamenn viti meira um formúlukappakstur en aðrir landsmenn.