01/05/2024

Vegaframkvæmdir ekki háðar mati á umhverfisáhrifum

Það er niðurstaða Skipulagsstofnunar að lagning Strandavegar (643) við botn Steingrímsfjarðar, Djúpvegur-Geirmundarstaðavegur, sé ekki líkleg til að hafa umtalsverð umhverfisáhrif í för með sér og skuli því ekki háð mati á umhverfisáhrifum. Skipulagsstofnun ítrekar þó mikilvægi þess að Vegagerðin og aðrir sem að framkvæmdinni koma viðhafi þá verktilhögun og mótvægisaðgerðir sem kynnt hafa verið og að aðgerðir og áhrif þeirra verði vöktuð þannig að framkvæmdin valdi ekki verulegum og óafturkræfum áhrifum á umhverfið. Samkvæmt 14. gr. laga nr. 106/2000 með síðari breytingum má kæra ákvörðun Skipulagsstofnunar til umhverfisráðherra og er kærufrestur til 11. janúar 2011.

Framkvæmdirnar felist í lagningu 2,8 km langs kafla á Strandavegi (643), af Djúpvegi í botni Steingrímsfjarðar að Geirmundarstaðavegi í mynni Selárdals. Veglínan er fjarri núverandi veglínu, hún liggur um nýja brú yfir ósa Staðarár, yfir ósasvæðið og áreyrarnar, með sjó fyrir neðan Stakkanes og Grænanes og síðan upp bakkana á núverandi veg. Jafnframt mun legu Staðarvegar (0,70 km), Stakkanesvegar (0,16 km) og tengingu Grænaness við Strandaveg (0,26 km) verða breytt. Framkvæmdin er lokaáfanginn við að leggja bundið slitlag á leiðina milli Hólmavíkur og Drangsness.

Það er mat Vegagerðarinnar að framkvæmdin auki greiðfærni og umferðaröryggi. Stefnt er að því að framkvæmdir við verkið hefjist 2011 og að verklok verði 2012.