14/04/2024

Opna Riis mótið framundan

Þann 14. okt. næstkomandi verður Opna Riis boltamótið haldið í Íþróttamiðstöðinni á Hólmavík. Sama fyrirkomulag verður haft á mótshaldinu og á síðasta ári.  Á vellinum spila fjórir frá hvoru liði, en reynslan sýnir að gott er að hafa nokkra varamenn og að liðið innihaldi 5-8 manns. Þátttökugjald verður kr. 500.- á leikmann, og fær sigurliðið frían snæðing á pizzahlaðborði á Cafe Riis um kvöldið. Skráning liða á mótið fer fram hér á vefnum á spjallþræði strandir.saudfjarsetur.is. Liðlausir leikmenn eru hvattir til að skrá sig einnig, því oft vantar menn í einhver lið.

Í fyrra sigraði lið Stuðmanna sem eru starfsmenn Orkubús Vestfjarða á Hólmavík og var Bjarki Guðlaugsson valinn besti maður mótsins. Strandamenn syðra ætla nú að mæta tvíefldir til leiks, en þeir ætluðu sér einnig stóra hluti í fyrra en stóðu ekki undir væntingum. Þá æfði lið brottfluttra einu sinni fyrir mótið sem reyndist mistök því gríðarlega mikil afföll urðu á mannskapnum á æfingunni og ekki var hægt að stilla upp sterkasta liði.

Eitt lið frá Ísafirði kom í fyrra og stóð sig með ágætum og enn betur á Cafe Riis um kvöldið. Þess má geta að stemning verður á Hólmavík þennan laugardag því um kvöldið fara fram úrslit í Karókí keppni Hólmvíkinga og verður örugglega sveifla á einhverjum fram á nótt.

Úrslit mótsins í fyrra voru þessi:

1. Stuðmenn – 16 stig (Bjarki Guðlaugsson, Eysteinn Gunnarsson, Gunnar Logi Björnsson, Ágúst, Júlíus Freyr Jónsson – allir starfsmenn OV á Hólmavík).

2. Sigurliðið – 13 stig (Agnar Már, Kolbeinn Jósteinsson, Smári Þorbjarnarson, Gunnar Bragi, Helgi Eggertsson)

3. Hraðlestin – 8 stig (Benedikt Heiðar Sigurðsson, Smári Jóhannsson, Flosi Helgason, Raggi Beggi, Eysteinn Einarsson)

4. Young Boys – 7 stig (Jón Örn Haraldsson, Kristján Páll Ingimundarson, Þórhallur Másson, Bjarki Einarson – ungu strákarnir í Grunnskólanum á Hólmavík).

5. FC karooke – 6 stig (Pétur Magnússon, Eyþór Sigurðsson, Hálfdán Bjarki Hálfdánsson, Theodór Theodórsson, Tumi Þór Jóhannsson, Erik Ashley Newman og Kolbeinn Einarsson – lið frá Ísafirði).

6.-7. Anton United – 4 stig ( Halldór Friðgeirsson, Anton Ásmundsson, Siggi Ste., Tóti, Siggi M)

6.-7. Þeir gömlu – 4 stig (Ólafur Magnússon, Jón Guðlaugsson, Ingvar Þ. Pétursson, Hafþór R. Benediktsson, Guðmundur V. Gústafsson, Guðmundur R. Guðmundsson, Benedikt S. Pétursson, Haraldur V.A. Jónsson – þeir gömlu góðu)