18/04/2024

Vaxtarsamningur í burðarliðnum?

Nær hugmyndin um vaxtarsamning til Hólmavíkur?Kynningarfundi sem vera átti á Ísafirði í dag um Vaxtarsamning Vestfjarða og skýrslu Verkefnisstjórnar um byggðaáætlun Vestfjarða hefur nú verið frestað og verður hann haldinn á morgun kl. 10:30. Í verkefnisstjórn eru Halldór Halldórsson, bæjarstjóri Ísafjarðarbæjar, Kristján G. Jóhannsson, framkvæmdarstjóri á Ísafirði, Ásdís Leifsdóttir, sveitarstjóri Hólmavíkurhrepps og Þórólfur Halldórsson, sýslumaður á Patreksfirði. Hefur verkefnisstjórnin lagt ýmsar tillögur að verkefnum fyrir Valgerði Sverrisdóttir iðnaðar-, viðskipta- og byggðamálaráðherra.

Á vef Svæðisútvarps Vestfjarða kemur fram að Valgerður Sverrisdóttir, iðnaðar og viðskiptaráðherra flytur ávarp í upphafi fundar. Ifor Flowcs-Williams, forstjóri Cluster Navigators Limited á Nýja Sjálandi heldur fyrirlestur um fyrirtækjaklasa og tengslamyndun í atvinnulífinu og síðan mun Sævar Kristinsson halda erindi um klasa og samstarf í samkeppni. Halldór Halldórsson, bæjarstjóri Ísafjarðarbæjar, tekur til máls og síðan koma sjónarmið og áherslur annarra aðila á svæðinu fram.