10/09/2024

Bridgevertíðin að hefjast – tvímenningur á Nauteyri

645-bridge3

Bridgevertíðin er að hefjast, en að venju byrja Strandamenn vetrarstarfið á að spila bridge saman á haustmóti í ágústlok. Að þessu sinni verður haldið mót í Steinshúsi á Nauteyri sunnudaginn 28. ágúst kl. 13:00 og ætla félagar í Bridgefélagi Hólmavíkur að fjölmenna, brottför frá Hólmavík er klukkustund fyrr. Keppt verður í tvímenning og eru allir sem áhuga hafi velkomnir í Steinshús til að taka þátt. Félagið á Hólmavík spilar á hverju sunnudagskvöldi yfir veturinn og er oft glatt á hjalla. Spilarar koma m.a. frá Hólmavík og nærsveitum á Ströndum, úr Saurbæ í Dölum og frá Reykhólum. Fyrirtæki og stofnanir heima fyrir hafa stutt við starfsemina, m.a. í tengslum við Firmakeppni félagsins í einmenning, og má þar nefna sveitarfélagið Strandabyggð, Orkubú Vestfjarða, Þörungaverksmiðjuna á Reykhólum, Hólmadrang, Kaupfélag Steingrímsfjarðar og Sparisjóð Strandamanna. Félagið vill þakka þessum styrktaraðilum kærlega fyrir stuðninginn og þeim sem hafa áhuga á að taka þátt í starfinu er bent á Facebook-hóp Bridgefélags Hólmavíkur.

Árlega er farið á mót hingað og þangað, héraðsmót HSS í bridge er jafnan í Trékyllisvík þann 1. maí og síðustu ár hefur verið spilað á Borðeyri, Borgarfirði, Tjarnarlundi, Reykhólum og Búðardal og einnig haldnar keppnir heima fyrir. Þeir kappsömustu fara á landsmót 50+, kjördæmismót og fleiri keppnir.