14/09/2024

Á Ströndum

Bjarni Jónsson myndAðsend grein: Bjarni Jónsson, Skagafirði
Ég er svo heppinn að hafa alist með afa mínum og ömmu í Bjarnarhöfn á Snæfellsnesi. Þau litu bæði á sig sem hreinræktað Strandafólk – þar ólust þau upp og þangað lágu allar þeirra ættir og þaðan höfðu þau flutt árið 1951 með 15 manna fjölskyldu þegar fiskurinn hvarf af Húnaflóa. Afi minn – Bjarni Jónsson – kom úr Kaldrananeshreppi, fæddur á Svanshóli, en amma mín – Laufey Valgeirsdóttir – kom frá Norðurfirði í Árneshreppi. Afi talaði alltaf um Strandirnar sem nálægt því heilagan stað – og þá sérstaklega um Asparvík þar sem þau bjuggu.

Asparvíkin

Föðurland vort hálft er hafið og það átti svo sannarlega við um búskap afa, Asparvíkin var ekki landmikil jörð. Hann hins vegar sótti sjóinn á Síldinni – sexæringi sem var smíðaður á Jökulfjörðum um 1860. Afi sagði alltaf með stolti að Síldin væri elsti sjófæri bátur á Íslandi og jafnframt að það væri besta skemmtun lífs síns að sigla henni undir fullum seglum í góðum byr. Á Síldinni hafði hann stundað ýmsar veiðar – þar með talið hákarlaveiðar frá Gjögri – og lagt upp fiskinn á Drangsnesi. Ég hef heyrt ýmsa eldri Strandamenn tala um hvað hann hefði verið farsæll á sjó, séð vel í myrkri og aldrei klekkst á. Afi sagði mér frá mörgum ferðum sínum með ljósmóður eða lækni milli bæja þegar ófært var á landi. Guðmundur frá Byrgisvík seldi afa Síldina 1929.

Á Breiðafirði notaði hann Síldina til þess að stunda hinn hefðbundna eyjabúskap enda fylgja Bjarnarhöfn nokkrar eyjar. Ég var því heppinn að fá að sigla með honum á þessum fengsæla bát – hvort sem það var við veiðar á grásleppu, sel eða lunda, eða jafnvel skutla kindum á milli eyja og lands. Síldin stendur núna uppi til sýnis í Hákarlasafninu í Bjarnarhöfn sem Hildibrandur föðurbróðir minn og fjölskylda rekur.

Djúpavík

Ég er því ávallt spenntur að koma á Strandirnar – og ég hugsa sérstaklega til þeirra afa og ömmu þegar ég kom norður fyrir Hólmavík. Svo var einnig fyrr í sumar. Ferðinni var heitið norður í Árneshrepp. Ég hef reyndar verið svo heppinn að eiga erindi þangað norður á undanförnum árum m.a vegna árlegra fiskirannsókna í Norðurfirði og rannsókna á hornsílunum á Gjögri sem eru einstök á heimsmælikvarða en þau búa í heitu vatni og söltum sjó samtímis. En þó það væri allt í lagi fyrir ferðalang að keyra þennan malarveg norður í Árneshrepp á bjartri sumarnótt með ægifögur Strandafjöllinn á aðra hlið er alveg ljóst að þessi vegur getur ekki þjónað fólki í heilsársbúsetu. Enda nýtur hann ekki snjómoksturs á veturna eins og aðrir vegir en hann er ekki í þjóðvega tölu. Endurbætur á hinum stórkoslegu mannvirkjum síldarævintýrisins á Djúpavík eru afrek og eiga þau Ásbjörn og Eva sem þar ráða húsum miklar þakkir skildar.

Hvergi er fjaran fallegri

Það var fallegt í Trékyllisvíkinni og Norðurfirðinum þetta kvöld sem við tjölduðum á tjaldsvæðinu í Norðurfirði. Amma mín Laufey sagði ávallt að hvergi væri fjaran fallegri en í Norðurfirði og þau orð var ekki hægt að rengja þetta kvöld. Mikill fjöldi fólks var á svæðinu, ætttarmót og fjölskyldusamkomur og annað ferðafólk. Höfnin í Norðurfirði var full af strandveiðibátum og var það nokkuð önnur og fallegri sýn en var fyrir 10 árum síðan þegar varla sást þar bátur. Strandveiðikerfið er að vísu takmarkað, en er samt áður ein besta byggðaðagerð síðustu ára fyrir minni sjávarbyggðir í landinu. Við litum við á hinu snyrtilega safni Kört í Árnesi – já, og allt iðaði af lífi. Ferðaþjónusta og strandveiðar hafa svo sannarlega hleypt lífi í þetta byggðarlag síðustu ár.

Búsetan er auðlegð

Ég hins vegar velti einnig fyrir mér hag þeirra sem áfram búa á Ströndum. Afi tók þann kost að flytja þaðan fyrir rúmum 60 árum og þann sama kost hafa margir Strandamenn tekið síðan. Víða um landið eru eiginlega strandamannanýlendur þangað sem fólk leitaði frá Ströndum; Skagaströnd, Akranes, Grundarfjörður, Ísafjörður og jafnvel Keflavík koma upp í hugann. Þessu fólki vegnar oftast vel á nýjum stað – en því var samt flestu farið líkt og afa mínum að hugsa afar hlýtt til sinna gömlu heimkynna.

Mér varð einnig hugsað til ömmusystkina minna sem héldu búskapnum áfram norður í Árneshreppi, börn Valgeirs Jónssonar í Norðurfirði, en alls taldi systkinahópurinn 18 manns. Þau voru mörg staðráðin í því að búa áfram í sinni heimabyggð og reiða sig á sauðfjárbúskap og stækkuðu búin sín í takt við nýja tíma. Byggð og búseta í Árneshreppi er hluti íslenskrar menningar og auðlegð sem þjóðin öll nýtur – líkt og á við allar hinar dreifðu byggðir Íslands.

Samgöngur eru forsenda byggðar

Og góðar vegasamgöngur er forsenda fyrir að byggð haldist. Byggðin og búsetan er því á pólitískri ábyrgð stjórnvalda. En því miður hafa loforð um vegabætur í Árneshrepp ekki verið efnd á undanförnum árum. Að vísu er verið að leggja nýjan veg yfir Bjarnarfjarðarháls sem hafði þó verið á framkvæmdaáætlun fyrir meira en 10 árum síðan.

Við hjónin ókum aftur suður Strandirnar framhjá Asparvík, gegnum Bjarnarfjörðinn að Laugarhóli þar sem afi minn tók þátt í að byggja fyrstu sundlaugina, út á Drangsnes og áfram til Hólmavíkur.

Að lokinni þessari góðu ferð hét ég því með sjálfum mér að fengi ég þar nokkru um ráðið, skyldi ég leggja mig allan fram í þágu byggðar og búsetuskilyrða á Ströndum.

Bjarni Jónsson