08/10/2024

Úrslit á Héraðsmóti HSS

Á dögunum var héraðsmót HSS haldið á Sævangi. Veðurguðirnir voru ekki hliðhollir keppendum þetta árið, en Strandamenn láta smá rok og rigningu ekki stöðva sig – enda gott að setjast niður og fá sér heitt kaffi og með því inni á Sauðfjársetri. Ánægjulegt var að sjá hversu margir keppendur frá Umf. Hörpu í Hrútafirði mættu til leiks. Geislinn fór með sigur í stigakeppni liða með 207 stig. Hörð barátta var um annað sæti milli Umf. Neista og Umf. Hörpu. Það var ekki fyrr en í síðustu greinunum sem úrslitin voru ljós, Neistinn krækti í annað sæti  með 84,5 stig en Harpa það þriðja með 79 stig. Í fjórða sæti var Umf. Hvöt með 49 stig, í fimmta sæti Umf. Leifur heppni með 34,5 stig og í sjötta sæti var Skíðafélag Strandamanna með 7 stig. Úrslit má nálgast hér í Excel-skjali.

23. júlí er síðan Barnamót HSS í frjálsum íþróttum 12 ára og yngri. Keppt verður á Sævangi og hefst keppni kl. 13.00. 

Frá Héraðsmóti HSS í Sævangi 1963. Langstökksgryfjan snýr öfugt miðað við í dag og ýmsa gamalkunna jeppa gefur að líta í baksýn við Sævang. Langstökkvarinn sjálfur er óþekktur. Á hinni myndinni er sennilega einhver Ingimundarson frá Svanshóli að stökkva hástökk og lendir bráðlega í heyhrúgu sem er að leika hástökksdýnu.