26/04/2024

Útgáfutónleikar á Laugarhóli

645-hotellaugarholl

Hjónin Bára Grímsdóttir og Chris Foster sem saman mynda hinn frábæra þjóðlagadúett FUNA halda tónleika á Hótel Laugarhóli í Bjarnarfirði þriðjudagskvöldið 21. maí kl. 20:00 í tilefni af útgáfu nýs hljómdisks sem hlotið hefur heitið FLÚR og inniheldur gullfallega, lítt þekkta, íslenska þjóðlagatónlist. Á tónleikunum syngja Bára og Chris bæði, og auk þess leikur Bára á finnskt kantele, en Chris spilar á gamla íslenska hljóðfærið langspil, enskt hammer dulcimer og á gítar, sem er þó stilltur öðruvísi en venjulega er gert.

Á disknum FLÚR sem og á tónleikunum má heyra nokkur ný lög eftir Báru sem fæst hafa verið hljóðrituð til útgáfu fyrr. Meirihlutinn eru þó kvæðalög, tvísöngslög og sálmalög sem fundist hafa í ýmsum gömlum heimildum og eru flutt í útsetningum Báru og Chris. Textarnir eru bæði nýir og gamlir, allt frá þjóðkvæðum og sálmum frá 16. öld til kvæða eftir Grím Lárusson frá Grímstungu, föður Báru. Umgjörð disksins er vönduð og með honum fylgir veglegur bæklingur á íslensku og ensku.

Bára Grímsdóttir ólst upp við söng og kveðskap, heyrði og lærði allt frá barnæsku kveðskap foreldra sinna, afa og ömmu á bænum Grímstungu í Vatnsdal. Bára er af mörgum talin vera einn allra besti túlkandi þjóðlegrar tónlistar hér á landi, en hún hefur sérstakan áhuga á rímnastemmum og kvæðalögum. Hún hefur fengist við flutning á margs konar þjóðlagatónlist bæði hér heima og erlendis. Sem tónskáld og útsetjari, hefur Bára nýtt sér uppsprettulindir íslenskra þjóðlaga til skapandi starfs en hún hefur hlotið margvíslegar viðurkenningar sem tónskáld.

Chris Foster kynntist þjóðlögum í uppvexti sínum í Somerset í Suðvestur-Englandi. Flutningur hans einkennist af mikilli og persónulegri innlifun í tónlistina, sem oft leiðir til þess að áheyrendur verða beinir þátttakendur í því sem fram fer og flutt er. Chris hefur sett þjóðlagahefðina í nútímalegan búning með sérstæðum, frumlegum gítarundirleik og sannfærandi söngtúlkun. Hann er talinn einn besti listamaður síðari tíma á sínu sviði og í fremstu röð merkra brautryðjenda í endurvakningu á breskri þjóðlagatónlist.