23/04/2024

Framhaldsnám á Hólmavík í boði í haust

645-skolafolk
Fjallað er um fyrirhugaða framhaldsskóladeild á Hólmavík í frétt á vef Strandabyggðar – www.strandabyggd.is. Kennsla í slíkri deild í samstarfi við Fjölbrautaskóla Norðurlands vestra hefst næsta haust og eru áhugasamir námsmenn á öllum aldri hvattir til að skrá sig þegar opnað verður fyrir skráningar í lok maí, en það skráningartímabil stendur fram í júní. Þegar hafa 5 nemendur óskað eftir námsvist við deildina á Hólmavík sem fyrsta eða annað val, en gera má ráð fyrir að fleiri bætist í hópinn á aðalskráningartímanum. Sambærilegt dreifnám hófst á Hvammstanga í haust og þykir hafa tekist afar vel.

Á vef Strandabyggðar segir: „Það er mikið tilhlökkunarefni að hefja þennan nýja áfanga í skólasögu svæðisins en nú mun ungu fólki á Ströndum í fyrsta sinn gefast tækifæri til að hefja framhaldsnám í heimabyggð. Samfélagið hér mun sannarlega njóta þess að fá þennan nýja aldurshóp inn í vetrarflóruna og það verður gaman að taka þátt í og fá að fylgjast með hvaða áhrif þetta mun hafa á samfélagið.

Framhaldsdeildin okkar – dreifnámið – er ekki eingöngu ætlað þeim sem eru að ljúka við 10. bekk grunnskóla. Allir sem hug hafa á námi geta nú sótt um og lagt stund á fyrstu tvö árin í framhaldsnámi á Hólmavík (næsta haust er þó eingöngu boðið upp á grunnfög fyrsta árs). Námsmenn á öllum aldri geta skráð sig í námið, bæði íbúar í Strandabyggð og nágrannasveitarfélögum, einnig þeir sem eru að hefja nám að nýju eftir langt eða stutt námshlé og þeir sem hafa farið af staðnum í nám en langar að snúa til baka. Hægt er að skrá sig í einstök fög eða fullt nám, allt eftir því hvað hentar hverjum og einum.“

Auk þeirra áfanga sem í boði eru í deildinni geta nemendur í dreifnáminu skráð sig í fleiri áfanga í fjarnámi.