24/04/2024

Náttúrubarnaskólinn þakkar fyrir sumarið

natturuborn1

Sumarstarfinu er nú lokið hjá Náttúrubarnaskólanum sem starfræktur er á Sauðfjársetrinu í Sævangi og vill Dagrún Ósk Jónsdóttir yfirnáttúrubarn og þjóðfræðingur koma á framfæri þökkum til allra sem hafa mætt á námskeið og viðburði eða unnið með verkefninu í sumar. Í skeyti frá Dagrúnu segir: „Jæja þá er ágúst búinn og sumarið líka. Sumarið sem var að klárast var annað sumar Náttúrubarnaskólans og tókst það ljómandi vel! Náttúrubarnaskólinn stóð fyrir allskonar viðburðum í sumar, leikjanámskeiðum, náttúrubarnanámskeiðum fyrir börn alla fimmtudaga, þremur helgarnámskeiðum, kvöldvöku, gönguferðum, spurningakeppni, degi hinna villtu blóma, jurtaseyðisnámskeiði fyrir fullorðna og fleiru. Við tókum einnig á móti fjölbreyttum hópum, til dæmis grunnskólabörnum, eldri borgurum og bandarískum háskólanemum sem eru að læra umhverfisfræði svo eitthvað sé nefnt.“

Dagrún heldur svo áfram að gera upp sumarið: „Í sumar fékk Sauðfjársetrið og Náttúrubarnaskólinn svo afhenta Lóuna – menningarverðlaun Strandabyggðar fyrir öfluga aðkomu að menningarlífi í sveitarfélaginu við hátíðlega athöfn á Hamingjudögum á Hólmavík. Það var gaman. Í sumar opnaði líka ljósmyndasýningin Náttúrubörn á Ströndum í Kaupfélagi Hólmavíkur í sambandi við Hamingjudagaog mun hún vera uppi allan næsta vetur.

Náttúrubarnaskólinn sá um Safnasnappið einu sinni í sumar og svo kom Landinn í heimsókn í júlí og mun ég láta ykkur vita hér þegar þátturinn verður sýndur og hlakka mikið til.

Tilraunastofa í kjallaranum í Sævangi var líka tekin í notkun sem verður gaman að nota meira í framtíðinni, auk þess sem krakkarnir bjuggu til lítið bú utan við Sævang þar sem hægt er að leika sér. Í lok sumars var svo settur upp skjólveggur fyrir náttúrubarnatjaldið stóra við Sævang.

Alls komu 344 manns á viðburði á vegum Náttúrubarnaskólans í sumar og er það mikil aukning frá því í fyrra sem er ótrúlega skemmtilegt! Einnig var gaman að fá börn á námskeiðin svo víðsvegar af landinu, en þau komu allsstaðar að. Til dæmis af höfuðborgarsvæðinu, úr Vogum, frá Selfossi, Sauðárkróki, Skagaströnd, Drangsnesi, Reykhólum, Borðeyri og auðvitað Hólmavík og nágrenni! Auk þess komu börn frá Svíþjóð, Danmörku og Fíladelfíu.

Hér eru nokkrar myndir frá því í sumar! Ég þakka ykkur öllum kærlega fyrir sumarið og hlakka til framhaldsins!“

natturuborn2 natturuborn3

Svipmyndir úr starfi Náttúrubarnaskólans í sumar – ljósm. Dagrún Ósk Jónsdóttir og Jón Jónsson