10/12/2024

Bundið slitlag alla leiðina milli Hólmavíkur og Þingeyrar

MjóafjarðarbrúSnemma í september var ný brú yfir Mjóafjörð í Ísafjarðardjúpi vígð og tekin í notkun. Færðist þá aðalvegurinn milli Hólmavíkur og Ísafjarðar þangað, en vegurinn um Eyrarfjall milli Ísafjarðar og Mjóafjarðar hefur verið lagður af og líklega lokað því hann er merktur sem botngata Ísafjarðarmegin. Jafnframt aka vegfarendur nú á bundnu slitlagi alla leiðina milli Hólmavíkur og þorpanna á norðanverðum Vestfjörðum, Súðavíkur, Ísafjarðar, Hnífsdals, Bolungarvíkur, Flateyrar, Suðureyrar og Þingeyrar. Sumarleiðin milli Hólmavíkur og Ísafjarðar er svipað löng og áður, en hún er nú 225 km samkvæmt vef Vegagerðarinnar. Vetrarleiðin styttist hins vegar umtalsvert því vegurinn um Eyrarfjall var oft lokaður.

Vegurinn um Ísafjarðardjúp er nú að mestu orðinn ásættanlegur og í takt við tímann. Þó eru kaflar þar sem þyrfti að huga að öryggismálum, vegriðum og slíku. Enn er einbreitt slitlag í Seyðisfirði og hættulegur einbreiður kafli í Hestfirði þar sem yfirsýn er takmörkuð.

Þá eru ennþá átta einbreiðar brýr á leiðinni, yfir Aratunguá í Staðardal á Ströndum, Langadalsá, Laugardalsá, Kleifaós í Skötufirði, ein er í botni Hestfjarðar og þrjár einbreiðar brýr eru í Álftafirði. Sex einbreiðar brýr færast út af aðalveginum við þessa breytingu, þrjú ræsi á Eyrarfjalli og þrjár brýr í Mjóafirði. Þá er nýlega búið að breikka einbreiða brú yfir Arnardalsá við Skutulsfjörð. Til samanburðar eru 13 einbreiðar brýr á leiðinni frá Hrútafjarðarbotni til Hólmavíkur.

Vegalengdir vestur á bóginn frá Hólmavík um Djúp eru þær að 204 km eru á Súðavík, 225 á Ísafjörð, 239 í Bolungarvík, 241 á Suðureyri, sama vegalengd á Flateyri og 268 km á Þingeyri. Til samanburðar má nefna að 191 km er frá Hólmavík á Blönduós, 214 km á Skagaströnd og 239 km á Sauðárkrók.