25/04/2024

Undirbúningur fyrir skemmtikvöld á fullu

Undirbúningur fyrir skemmtikvöld Leikfélags Hólmavíkur er nú í fullum gangi, en það verður haldið í félagsheimilinu á Hólmavík í kvöld kl. 20:30. Skemmti- og spunakvöldið er m.a. haldið til að lagfæra bágborna stöðu á bankareikningi félagsins og er aðgangseyrir 500 krónur. Leikfélag Hólmavíkur hefur átt margar góðar stundir og skemmtunin nú er haldin á 25 ára afmæli félagsins. Vegna fyrirspurna um hverjir séu á meðfylgjandi mynd úr fyrri frétt um skemmtikvöldið skal upplýst að þetta eru Doddi dóni sem er túlkaður af Sverri bassa Guðbrandssyni og Kalli klámhundur sem leikinn er af Jóni Jónssyni fyrir 15 árum sléttum.

Spunaleikarar sem vilja skemmta sér vel eða jafnvel slá í gegn í spunakeppninni í kvöld geta enn skráð sig til þátttöku hjá Salbjörgu Engilbertsdóttur í síma 451-3476 og 865-3838. Núverandi stjórn Leikfélagsins skipa Salbjörg Engilbertsdóttir, Jóhanna Ása Einarsdóttir og Svanhildur Jónsdóttir.

Doddi dóni og Kalli klámhundur í leikritinu Þú ert í blóma lífsins, fíflið þitt. Myndin er tekin af vef félagsins á slóðinni www.holmavik.is/leikfelag.