13/11/2024

Nokkur umferðaróhöpp í liðinni viku


Nokkur umferðaróhöpp urðu í liðinni viku í umdæmi lögreglunnar á Vestfjörðum, að því er fram kemur í tilkynningu. Akstursskilyrði voru misjöfn og breyttust á mjög skömmum tíma, lúmsk hálka myndaðist og víða var snjór á vegi. Bifreið hafnaði á kyrrstæðri bifreið á Sindragötu á Ísafirði á þriðjduag, talsvert tjón varð á ökutækjum og ökumaður fór á sjúkrahúsið á Ísafirði til skoðunar. Á föstudag urðu fjögur óhöpp. Bifreið hafnaði út af veginum í Mikladal, milli Patreksfjarðar og Tálknafjarðar og fór farþegi í þeim bíl á heilsugæslustöðina á Patreksfirði til skoðunar, en um minni háttar meiðsl var að ræða. Bifreiðin óökuhæf og flutt af vettvangi með krana.

Þá varð bílvelta á Djúpvegi við Reykjanes, þar slapp ökumaður án  meiðsla, en bifreiðin óökuhæf, flutt af vettvangi með krana. Þá varð óhapp á Þumlungsgötu við gamla hraðfrystihúsið á Ísafirði, þar hafnaði jeppi á ljósastaur og utan í kyrrstæðri bifreið, talsvert tjón varð á ökutækjum og ekki slys á fólki. Fjórða óhappið þennan dag varð síðan þegar bifreið hafnaði á umferðarmerki við gatnamót Mjósunds og Pollgötu á Ísafirði.  Minniháttar skemmdir urðu. Á laugardag varð árekstur á Ásgeirsgötu á Ísafirði, þar lentu tvær bifreiðar saman en ekki varð um miklar skemmdir að ræða í því óhappi. 

Lögregla vill enn og aftur brýna fyrir ökumönnum að gæta varúðar og aka varlega og taka tilliti til aðstæðna hverju sinni.

Miðvikudaginn var tilkynnt um reyk frá húsi við Hafnarstræti á Ísafirði. Töluverðan reyk lagði frá húsinu, sem var mannlaust. Slökkvilið og lögregla komu fljótt á staðinn og reyndist vera um bilun að ræða í rafmagni sem orsakaði reykinn.

Á mánudag var tilkynnt um slys ofan við heilsugæslustöðina í Bolungarvík. Þar hafði kona hrasað og rotast. Hún var flutt á sjúkrahúsið á Ísafirði til skoðunar, þar sem gert var að meiðslum hennar.