18/04/2024

Fyrirheit og gleði um helgina

Bjarni ÓmarGóð stemmning er á Ströndum fyrir útgáfutónleikum og dansleik um helgina á Hólmavík, en viðburðirnir eru í tengslum við útgáfu Bjarna Ómars Haraldssonar á sólóplötu sinni Fyrirheit. Útgáfutónleikarnir fara fram í Félagsheimilinu á Hólmavík á laugardag og hefjast kl. 21:00, en húsið opnar kl. 20:00. Vegna veitingasölu er aldurstakmark á tónleikana 18 ár nema í fylgd með forráðamanni. Á tónleikunum mun Bjarni Ómar flytja lög af væntanlegri sólóplötu sinni með fulltingi 9 söngvara og hljóðfæraleikara. Umgjörð tónleikana er mjög glæsileg og ekkert er til sparað í hljóði og ljósum. Miðaverð á tónleikana er kr. 2.500.-

Öllum börnum og unglingum yngri en 18 ára er boðið að koma án endurgjalds og fylgjast með lokaæfingu í félagsheimilinu klukkan 16:00 á laugardeginum.

Sama kvöld eða frá kl. 24:00-03:00 mun hljómsveitin síðan spila á almennum dansleik fyrir dansþyrsta gesti með open mic fyrirkomulagi þar sem gestum gefst tækifæri til að taka lagið. Miðaverð á dansleikinn er kr. 2.500.- og aldurstakmark 16 ár. Rétt er að athuga að sé keyptur miði saman á tónleika og ball er miðaverðið kr. 3.500.-

Forsala aðgöngumiða fer fram í Félagsheimilinu á Hólmavík í dag og á morgun, miðvikudaginn 15. og fimmtudaginn 16. október, milli klukkan 17:00-19:00.