07/10/2024

Enginn skortur á skemmtigildi og glæsileika

strand4-akj

Strandamenn stóðu sig með sóma og prýði í Útsvarskeppni gærkvöldsins, þar sem þeir biðu lægri hlut fyrir Rangárþingi ytra eftir bráðabana 71-73. Segja glöggir menn að liðið hafi staðið sig frábærlega hvað varðar skemmtigildi og glæsileika, sem sé alls ekki alslæmt og eiginleikar sem skipta líka miklu máli í spurningaleik, þótt góðar gáfur liðsins sem er þriðji mikilvægi eiginleikinn í spurningakeppni hafi því miður ekki dugað til sigurs gegn ógnarsterku liði Rangárþings. Strandamenn una því sæmilega sáttir við sitt, að keppni yfirstaðinni, en fjölmargir mættu í sjónvarpssal til að hvetja þátttakendur til dáða.

Þeir allra bjartsýnustu telja jafnvel að árangurinn dugi til að komast í aðra umferð, þar sem stigahæstu tapliðin komast einnig áfram. Tíminn einn sker úr um það. Strandamenn naga neglur sínar og ganga órólegir um gólf á meðan þetta er að skýrast. Meðfylgjandi mynd af liðinu tók Andrea Kristín Jónsdóttir.