30/04/2024

Arnkötludalsvegur lítið á eftir áætlun

Í frétt á www.bb.is kemur fram að framkvæmdir við nýjan veg um Arnkötludal og Gautsdal eru lítillega á eftir áætlun, að sögn Guðmundar Rafns Kristjánssonar, deildarstjóra nýframkvæmda hjá Vegagerðinni á Ísafirði. Á köflum hafi lakara efni en gert var ráð fyrir tafið verkið, en lagning neðra burðarlags sé komin vel á veg. Samkvæmt verksamningi á því verki að vera lokið 1. desember eða eftir rúman mánuð, en Guðmundur Rafn segir á mörkunum að það standist.

Áformað var að hleypa umferð á veginn í vetur þegar lagningu neðra burðarlags væri lokið. Guðmundur Rafn segir það sína skoðun að ekkert vit sé í slíku. Fyrir utan kostnað við stikun og merkingar sé ekkert grín að aka tugi kílómetra á slíkum vegi og enginn tímasparnaður.