Categories
Frétt

Þörungaverksmiðjan á súpufundi

Ljósm.: www.thorverk.isÁ vikulegum súpufundi fimmtudaginn 19. nóvember mun Atli Georg Árnason framkvæmdastjóri Þörungaverksmiðjunnar á Reykhólum kynna starfsemi
verksmiðjunnar. Það verður eflaust fróðlegt fyrir íbúa á Ströndum að fá tækifæri
til að kynnast þeirri starfsemi. Þörungaverksmiðjan framleiðir mjöl úr klóþangi
(Ascophyllum nodosum) og hrossaþara (Laminaria digitata) sem sótt er til vinnslu
víðs vegar úr Breiðafirði. Verksmiðjan tók fyrst til starfa árið 1975 og verður
því 35 ára á næsta ári. Meira en 95% af framleiðslu Þörungaverksmiðjunnar fer
til útflutnings og helstu markaðir eru Skotland, Bandaríkin, Bretland, Noregur,
Holland, Þýskaland, Frakkland, Japan og Taiwan. Mjölið er framleitt að miklu
fyrir fyrirtæki sem áframvinna efnið enn frekar til að einangra þessi svokölluðu
gúmmíefni til áframvinnslu í  matvæla-, snyrtivöru-, lyfja-, textiliðnað ásamt
margskonar öðrum iðnaði.

Þörungaverksmiðjan hf. tók formlega á móti vottun þann 14. júní árið 1999 þess
efnis að framleiðsla verksmiðjunnar sé lífrænt vottuð. Stöðugildi hjá
Þörungaverksmiðjunni h.f. er 32 starf og auk þess starfa verktakar við þangslátt
á sumrin.

Þessi þriðji súpufundur vetrarins verður að venju í hádeginu á
fimmtudegi á Café Riis frá kl. 12:00 – 13:00. Það eru allir hvattir til að mæta
og fræðast um Þörungaverksmiðjuna og gæða sér á gómsætri súpu á Café Riis.

Heimasíðu Þörungaverksmiðjunnar er að finna á slóðinni www.thorverk.is