Categories
Frétt

Þjóðhátíðarsjóður úthlutar styrkjum

KörtÁ fréttavefnum www.reykholar.is kemur fram að nú er lokið úthlutun styrkja úr Þjóðhátíðarsjóði vegna ársins 2009. Umsóknir að þessu sinni voru 161, en úthlutað var styrkjum til 56 verkefna, samtals 30,4 milljónir. Hæsti styrkurinn að þessu sinni, að upphæð 2 milljónir, rennur til endurreisnar Listasafns Samúels í Selárdal við Arnarfjörð. Tvö verkefni á Ströndum fengu styrk, annars vegar Guðrún A. Gunnarsdóttir sem fékk 400 þús. fyrir verkefni um gerð söguskilta sem í máli og myndum greina frá sögu síldarvinnslu við Ingólfsfjörð á árunum 1915-1951. Hins vegar Minja og handverkshúsið Kört í Trékyllisvík sem fær 400 þúsund til að setja upp sýningu um æfi og störf merkismannsins Þorsteins Þorleifssonar í Kjörvogi.

Tilgangur Þjóðhátíðarsjóðs er að veita styrki til stofnana og annarra aðila, er hafa það verkefni að vinna að varðveislu og vernd þeirra verðmæta lands og menningar, sem núverandi kynslóð hefur tekið í arf.

Alls voru það 7 verkefni á Vestfjarðakjálkanum sem fengu styrk að þessu sinni:

Félag um endurreisn Listasafns Samúels í Selárdal (Ólafur J. Engilbertsson) kr. 2.000.000.
Gera fokhelt endurgert íbúðarhús Samúels þar sem verður íbúð og vinnuaðstaða fyrir lista- og fræðimenn ásamt lítilli sölubúð.

Átthagafélag Sléttuhrepps (Þórólfur Jónsson) kr. 800.000.
Gera við kirkjuna á Stað í Aðalvík, sem byggð var 1904 og því friðuð samkvæmt þjóðminjalögum.

Minjasjóður Önundarfjarðar (Jóhanna Kristjánsdóttir) kr. 500.000.
Skrá muni og bækur kaupmannshjóna að Hafnarstræti 3-5 á Flateyri.

Fornleifafélag Barðstrendinga og Dalamanna (Björn Samúelsson og Uggi Ævarsson) kr. 400.000.
Skrá fornleifar í Oddbjarnarskeri og flétta síðan skráninguna saman við eyjamenningu Breiðafjarðar.

Guðrún A. Gunnarsdóttir kr. 400.000.
Gera skilti sem í máli og myndum greinir frá sögu síldarvinnslu við Ingólfsfjörð á Ströndum á árunum 1915-1951.

Minja- og handverkshúsið Kört í Trékyllisvík (Valgeir Benediktsson) kr. 400.000.
Setja upp sýningu um ævi og störf  Þorsteins Þorleifssonar.

Penna ehf. (Steinunn Hjartardóttir) kr. 200.000.
Endurgera skjaldarmerki sýslnanna á Vestfjörðum frá grunni úr varanlegu vatnsheldu efni og varðveita þau þannig áfram á framhlið Hótels Flókalundar.