04/10/2024

Snjóflóð utan við Stað

Í nýafstöðnu norðanhreti sem var ansi snarpt norðan Steingrímsfjarðar féll snjóflóð úr hlíðinni utan við Stað í Steingrímsfirði. Flóðið fór yfir túnið og veginn og náði alveg niður í Staðará. Tók flóðið með sér girðingar á talsverðum kafla og olli þannig nokkru tjóni. Þarna falla stundum snjóflóð sem ná að valda tjóni á girðingum, en að öðru leyti eru þau hættulítil og falla ekki nærri húsum.

Þó slæmt sé að verða fyrir skaða má segja að veðurguðirnir séu ekki alvondir við Magnús bónda á Stað því þótt svona hret valdi þeim sem veginn fara vandræðum, eins og sannaðist nú þegar björgunarsveitarmenn á Hólmavík þurftu að fara í mjög vondu veðri og bjarga óforsjálum ferðalöngum af  Steingrímsfjarðarheiði, þá skapar hretið stundum vinnu við snjómokstur. Í þessu tilfelli verður það kannski uppbót á skaðann, en undanfarnir vetur hafa ekki verið gjöfulir á vinnu fyrir snjóblásarabændur. Minnast þeir með söknuði hins gjöfula vetrar 1995 – og þó!!!  

Í hretinu bar líka við að ökumenn voru kannski ögn léttir á sér við norðanverðan Steingrímsfjörð og tóku einhver stökk og smá snúninga í takt við listdansara vetrarólympíuleikanna í Tórínó.

Eins og sjá má er ekki mikill snjór á skíðasvæðinu heim við bæinn.

Girðingin komin niður fyrir veg

Myndir sýnir hvaðan flóðið kom – ljósm. Guðbrandur Sverrisson