24/06/2024

Stuð á spurningakeppni

Spútniklið kvöldsins - Félagsmiðstöðin OzonAnnað keppniskvöld í Spurningakeppni Strandamanna var haldið nú fyrr í kvöld. Átta lið öttu kappi og fjögur þeirra duttu út úr keppninni. Sigurliðin fjögur halda hins vegar áfram í átta liða úrslit sem fara fram sunnudaginn 6. mars. Liðin sem komust áfram í átta liða úrslit í kvöld voru lið Félagsmiðstöðvarinnar Ozon, Skrifstofa Hólmavíkurhrepps, strandir.saudfjarsetur.is og lið kennara við Grunnskólann á Hólmavík. Dregið var í átta liða úrslitin í lok keppninnar.

Í átta liða úrslitum mætast:

  • Hólmadrangur – Bitrungar
  • Strandahestar – Skrifstofa Hólmavíkurhrepps
  • strandir.saudfjarsetur.is – Félagsmiðstöðin Ozon
  • Kennarar Grunnskólanum Hólmavík – Sparisjóður Strandamanna

Í fyrstu keppni kvöldsins áttust við lið Félagsmiðstöðvarinnar Ozon á Hólmavík og lið Fiskvinnslunnar Drangs á Drangsnesi. Keppnin var jöfn og spennandi allan tíman og bæði lið áttu góða möguleika á sigri fram í rauðan dauðann. Lið Ozon náði þó yfirhöndinni í vísbendingaspurningunum og vann sigur 19-16. Vösk framganga Úlfars Hjartarsonar frá Geirmundarstöðum í liði Fiskvinnslunnar Drangs vakti sérstaka athygli spekinga í salnum.

Í annarri keppni kvöldsins mættust lið Kvenfélagsins Iðunnar úr Hrútafirði og Skrifstofa Hólmavíkurhrepps. Var þetta fyrsta viðureignin í sögu keppninnar, að sögn Kristínar Einarsdóttur spyrils, þar sem bæði lið voru eingöngu skipuð konum. Skrifstofan hafði mikla yfirburði í keppninni og vann öruggan sigur að lokum, 26-9.

Þriðja keppni kvöldsins var á milli fréttavefjarins strandir.saudfjarsetur.is og liðs nemenda í Grunnskólanum á Hólmavík. Bæði lið voru í afar góðu skapi og léku á alls oddi við hvert tækifæri. Lítil spenna var hins vegar í keppninni sjálfri, en hana vann strandir.saudfjarsetur.is með 28 stigum gegn 12 nemendanna.

Fjórða og síðasta viðureignin var á milli liðs kennara við Grunnskólann á Hólmavík og Sjoppuliðsins. Sjoppuliðið var myndað á síðustu stundu til að bregðast við forföllum annars liðs og miðað við það stóð liðið sig með mikilli prýði. Þegar tíu bjölluspurningar af fimmtán voru búnar var staðan 16-14 fyrir kennarana, en eftir það tóku þeir sig aldeilis á og fengu nánast öll stigin sem eftir voru í boði, m.a. fullt hús úr vísbendingaspurningum eða 9 stig alls. Lokatölur voru því 29-14 kennurunum í vil, en Sjoppuliðið fékk mikið hrós fyrir einstaklega góðan húmor og hnyttin og óvænt svör við ýmsum spurningum.

Keppnin var mjög fjölsótt eins og venjulega og nánast hvert einasta sæti var skipað í Félagsheimilinu.