15/04/2024

Strandarækjur og Strandakjöt á Hamingjudögum

Frá síðustu HamingjudögumÁ síðasta fundi Menningarmálanefndar Strandabyggðar var bæjarhátíðin Hamingjudagar á Hólmavík til umræðu. Lagði Menningarmálanefnd til að auglýst yrði eftir framkvæmdastjóra sem annist alfarið framkvæmd þessarar hátíðar. Einnig var rætt var um að minnka umfang Hamingjudaganna, þannig að laugardagurinn sé sá eini sem verði í umsjón framkvæmdastjóra. Komið hafi fram að Sauðfjársetur á Ströndum verði með Furðuleika á sunnudeginum og eins hafi komið upp hugmynd um að leikfélagið verði með sýningu á föstudagskvöldi.

Í fundargerð Menningarmálanefndar segir að minnka þurfi aðkeypt skemmtiaðtriði og þar með kostnað og undirbúningsvinnu, en ekki kemur fram hvers vegna þetta er talið nauðsynlegt. Einnig kom fram tillaga um að Strandarækjur og Strandakjöt verði hluti hátíðahaldanna í svipuðum dúr og fiskisúpa Dalvíkinga og er þá væntanlega vísað til þess að Dalvíkingum hefur tekist að fá tugi þúsunda til að mæta á Fiskidaginn mikla með því að gefa veitingar.

Menningarmálanefndin leggur til að hverfislitunum verði haldið eins og verið hefur og mælst verði til að fólk hefji skreytingar fyrr. Ætlunin er að hafa umhverfisátak og samkeppni um skreytingarnar. Þá kemur fram í fundargerð Menningarmálanefndarinnar að sveitarstjórn hafði áður verið beðin að skipa í sérstaka Hamingjudaganefnd, en ekkert virðist hafa verið fjallað um það eða gert í því á sveitarstjórnarfundum. Allt þetta lagði síðan sveitarstjórn Strandabyggðar blessun sína yfir á fundi þar sem fundargerð Menningarmálanefndarinnar var samþykkt.

Þá var ennfremur fjallað um vefsíðu Hamingjudaganna www.hamingjudagar.is á fundi Menningarmálanefndar, en Sögusmiðjan á Kirkjubóli hafði sent tilboð í viðhald og uppfærslur vefjarins. Kom fram á fundinum að vefurinn var keyptur tilbúinn, en viðhald hans var ekki innifalið. Hefur vefurinn því verið án viðhalds síðan rétt eftir síðustu Hamingjudaga. Var tilboðinu vísað til sveitarstjórnar og ályktaði hún að eðlilegt væri skoða hvort gera ætti nýja heimasíðu fyrir sveitarfélagið sem að vefurinn yrði hluti af.