04/10/2024

Kotbýli kuklarans gengur vel

Góður gestagangur hefur verið í Kotbýli kuklarans í Bjarnarfirði frá því þessi annar áfangi Galdrasýningar á Ströndum opnaði þann 23. júlí sl., en um 1000 gestir hafa heimsótt sýninguna. Nú eru að verða síðustu forvöð að berja sýninguna augum á þessu ári en síðasti daglegi opnunartími hennar er á morgun þann 31. ágúst. Að sögn Sigurðar Atlasonar framkvæmdastjóra Galdrasýningar á Ströndum þá er hann ánægður með aðsóknina í Kotbýlið, sérstaklega í ljósi þess að sýningin opnaði ekki fyrr en í lok aðal ferðamannatímabilsins. Hrönn Magnúsardóttir þjóðfræðinemi frá Bakka í Bjarnarfirði hefur verið starfsmaður kotbýlisins í sumar.

Fyrir næsta vor er stefnt að því að merkja sýninguna í Bjarnarfirði betur við þjóðvegina, en Vegagerðin hefur ekki enn svarað tillögum sem voru lagðar fyrir hana snemma í júní s.l. "Það hlýtur að fara að gerast," segir Sigurður. Aðsóknin á Galdrasýninguna á Hólmavík í sumar hefur aldrei verið meiri og vitað er um nokkra stóra hópa sem stefna að heimsókn í september, en sýningin á Hólmavík er opin daglega til 15. september.