07/10/2024

Strandamenn teknir tali

Fuglahræðan ræðir við StrandamennVeðrið um páskana hefur verið afspyrnu gott og í tilefni af því þá tók tíðindamaður strandir.saudfjarsetur.is sig til í dag og fór um Hólmavík í blíðviðrinu, vopnaður myndavél og upptökutæki og tók nokkra aðila tali sem urðu á vegi hans. Þeir voru spurðir um hvað helst hefði á daga þeirra drifið yfir páskana. Það er ljóst af svörunum að fólk hefur haft nóg fyrir stafni yfir páskahelgina.

Ragnheiður IngimundardóttirRagnheiður Ingimundardóttir:

„Ég hef nú mest verið að vinna hér í Íþróttamiðstöðinni eða að vinna í mínum búskap. Ekkert frí og enginn leikur, það er enginn tími til þess fyrir bændur á þessum árstíma. Sundlaugin var opin á skírdag og á laugardaginn, þá var körfuboltamót í íþróttasalnum. Alveg brjálað að gera og nærri hundrað manns í sundi. Mjög mikið að gera. Svo er opið í dag en því miður lokað á morgun og hinn daginn vegna viðgerða. Ég hef ekkert mátt vera að því að synda sjálf".

Benedikt PéturssonBenedikt Pétursson:

„Ég hef nú aðallega verið að slappa af með fjölskyldunni, borða góðan mat og fá mér einn tvo bjóra á kvöldin og svona. Svo er ég búinn að fara í fótbolta og fara í golf og sund og bara gera allt með fjölskyldunni sem hægt er að gera. Allt gott".

Björk IngvarsdóttirBjörk Ingvarsdóttir:

„Ég hef bara verið  á hestbaki og nú er ég á leið í sund. Svo eru systur mínar búnar að vera í heimsókn og ég hef því verið með krökkunum þeirra og svona".

Kristján SigurðssonKristján Sigurðsson:

„Ég hef nú aðallega legið í leti, og það hefur bara verið fínt. Það hefur bara verið rólegt, svo hef ég verið að syngja í kirkjunni svolítið, bæði við jarðarför og messu. Annars bara að slaka á fyrir átökin".

María Mjöll GuðmundsdóttirMaría Mjöll Guðmundsdóttir:

„Ég hef nú bara verið hérna heima, svo skruppum við á Akureyri að heimsækja vini og ættingja. Svo fórum við í siglingu í gær um Steingrímsfjörð með pabba, að kíkja á ísjakana. Það var voða gaman og svo var veðrið svo fallegt líka".

Veigar Arthúr SigurðssonVeigar Arthúr Sigurðsson:

„Ég hef aðallega legið í áti og leti. Svo fór ég út á bát og keyrði líka Drangsneshringinn og skoðaði þar í fjörur. Svo tók ég þátt í körfuboltamóti á laugardaginn. Það var ansi gaman, en ég vann að vísu ekki".