28/03/2024

Leitað að nýju nafni

Í kjölfar sameiningarkosninga í Hólmavíkurhreppi og Broddaneshreppi þann 11. mars. sl. hefur nú verið blásið til skoðanakönnunar um nafn á nýja sveitarfélagið. Þar gefst íbúum tækifæri til að stinga upp á nýju heiti fyrir sveitarfélagið, en sú lína hefur verið lögð að fyrri nöfn sveitarfélaganna verði ekki notuð. Þess í stað er leitað eftir nýju nafni sem hefur skírskotun til svæðisins, þannig að nöfnin Broddaneshreppur og Hólmavíkurhreppur munu að öllum líkindum heyra sögunni til þegar sveitarfélögin sameinast formlega 15 dögum efitr kosningar. Í dreifibréfi kemur einnig fram að nefndin muni sjálf velja þrjú nöfn úr skoðanakönnuninni sem síðan verður kosið á milli í sveitarstjórnarkosningum. Eftirfarandi reglur hafa verið settar varðandi skoðanakönnunina:

1. Ekki verða notuð fyrri nöfn sveitarfélaganna sem sameinast heldur er leitað eftir nýju heiti sem hefur skírskotun til svæðisins.

2. Ekki verður horft til fjölda tilnefninga á hverju nafni þegar valið verður um þau 3 nöfn sem kjósa skal um.

3. Það nafn, sem flest atkvæði fær í sveitarstjórnarkosningunum, mun verða heiti hins nýja sameinaða sveitarfélags.
 
Þeir sem hafa áhuga á að skila inn tillögum að nafni geta lagt þær inn á skrifstofu Hólmavíkurhrepps eða til oddvita Broddaneshrepps. Tekið verður við tilnefningum frá 27. mars til 24. apríl n.k.