22/12/2024

Strandaðir skógar í Hólmakaffi

Myndlistarmennirnir Fiete Stolte og Timo Klöppel sýna verk sín á sýningu í Hólmakaffi á Hólmavík og verður hún opnuð þriðjudaginn 24. ágúst kl. 17. Hún er hluti af verkefni Þjóðfræðistofu sem snýr að þjóðfræði og menningarsögu rekaviðar. Annars vegar er um að ræða Polaroid ljósmyndasýningu og hins vegar myndasýningu um tilurð listaverks úr rekaviði sem myndar skógarlund frá Síberíu við Miðdalsá í landi Kirkjubóls við Steingrímsfjörð.

Sjóndeildarhringur/Skógur
Fiete Stolte
Fiete Stolte fæddist í Berlín 1979. Hann lærði í Kunsthochschule Berlin Weissensee hjá Karin Sander og útskrifaðist þaðan 2007.

Í verkum sínum tekst hann á við óhefðbundnar hugmyndir um tímann – hvernig hann líður og hvernig við skynjum hann. Með margvíslegum miðlunarleiðum varpar hann einnig ljósi á fjarveru og nánd. Í sýningunni Sjóndeildarhringur/Skógur stillir Fiete Stolte saman andstæðum: raunverulegum og auðsnertanlegum efniviði annars vegar, einsog t.d. rekavið í fjöru, og hins vegar sjóndeildarhringnum sem sjá má sem hinn ósnertanlega áfangastað eða einhvers konar eilífðartakmark sem aldrei næst.

Upprunalegar Polaroid ljósmyndirnar fanga vel þessa hugmynd með leik að láréttum og lóðréttum línum.

Siberian Forest
Timo Klöppel
Timo Klöppel fæddist í Berlín 1981. Hann lærði við Universität der Künste (UdK), hjá Tony Cragg og Florian Slotawa og útskrifaðist þaðan 2008. Hann vinnur með staðbundinn efnivið sem hann finnur, færir til og setur í nýtt samhengi – oftast á upprunastaðnum þó. Verk hans eru því svæðisbundin og vitna til um þann kraft sem
þau hafa beislað.

Þannig er einmitt farið með verk hans Siberian Forest/Síberíuskógur sem nú stendur í fjörunni við gistiheimilið Kirkjuból á Ströndum. Verkið er samsett úr rekaviðardrumbum sem bundnir hafa verið saman með reipisbútum úr fjörunni. Þannig myndar skúlptúrinn þéttan “skógarlund“. Tilurð verksins er einnig fram sett í ljósmyndaseríu sem til sýnis er á Hólmakaffi.