19/07/2024

strandir.saudfjarsetur.is er tveggja ára

Í dag eru tvö ár síðan fréttavefurinn strandir.saudfjarsetur.is hóf göngu sína og var kynntur sem jólagjöf til Strandamanna nær og fjær. Fyrirtækið Sögusmiðjan stendur fyrir framtakinu, en vinna við fréttaskrif og ritstjórn er unnin í sjálfboðavinnu. Ritstjórn hafa frá upphafi skipað Jón Jónsson þjóðfræðingur á Kirkjubóli, Sigurður Atlason framkvæmdastjóri Strandagaldurs og Arnar S. Jónsson framkvæmdastjóri Sauðfjárseturs á Ströndum. Fjöldi annarra velunnara vefjarins leggur hönd á plóginn og sendir ritstjórninni efni og myndir. Öllum slíkum sendingum er tekið fagnandi, þótt mjög misjafnt sé hvenær færi gefst á að setja þær inn. Áki G. Karlsson hannaði útlit vefjarins og sér um forritun.


Í frétt um opnun vefjarins frá því fyrir tveimur árum segir: "Stefnan er að skapa skemmtilegan og spennandi fréttavef fyrir svæðið sem verður notaður sem allra víðast. Vefritið hefur sérstakan áhuga á atvinnulífi, framkvæmdum og framförum á Ströndum, eflingu byggðar og skemmtilegu mannlífi í héraðinu. Öllu því sem gerir það sérstakt og jákvætt að lifa og starfa á Ströndum eða heimsækja héraðið sem ferðamaður.

Vefurinn var upphaflega hýstur erlendis á vægu verði, en öryggið var því miður í samræmi við gjaldskrána fyrir hýsinguna. Lenti vefurinn tvisvar sinnum í stórum bilunum hjá hýsingaraðila árið 2005 og tapaðist nokkuð af myndum fyrir fullt og fast í annað skiptið ásamt tveggja mánaða spjalli í spjalltorginu. Eins hefur nokkuð orðið vart við árásir netþrjóta sem vilja klekkja á forsíðunni, en vefnum er stjórnað með frjálsa vefumsjónarkerfinu Mambo. Sem viðbrögð við þessum leiðindabilunum samþykkti ritstjórn á sínum tíma að taka upp slagorð fyrir vefinn: strandir.saudfjarsetur.is – klikkar aldrei.

Í maí 2006 var hýsingin flutt til landsins, nánar tiltekið til Snerpu á Ísafirði, um leið og nýtt útlit vefjarins var tekið í notkun. Jafnframt litu nýjungar í veffréttaþjónustu á landsvísu dagsins ljós eins og innlend frétta- og mannlífsmyndbönd sem aðrir vefmiðlar tóku fljótlega upp eftir strandir.saudfjarsetur.is. Hafa ekki orðið alvarlegar bilanir síðan, en viðbragðstíminn á forsíðunni er hins vegar töluvert lakari. Um tvö þúsund gestir líta við á vefnum á degi hverjum og skoða að meðaltali 10 síður í hverri heimsókn. Reiknað er með að þessi mál öll verði rædd í þaula á hátíðarfundi ritstjórnar á næstunni, um leið og hugað verður að framtíðinni og horfum í heimsmálunum.