23/04/2024

Einar K. verður áfram ráðherra

Aðeins einn ráðherra er úr Norðvesturkjördæmi í nýrri ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar sem kynnt var í gær, en þeir voru þrír síðasta kjörtímabil. Það er Einar K. Guðfinnsson sem verður áfram sjávarútvegsráðherra og tekur jafnframt við embætti landbúnaðarráðherra. Sturla Böðvarsson verður hins vegar ekki ráðherra, en hann mun gegna embætti forseta Alþingis. Nokkra athygli vekur að aðeins þrjá ráðherra má telja fulltrúa landsbyggðarinnar, en níu ráðherrar eru íbúar suðvesturhornsins. Konur í ríkisstjórn eru aðeins fjórar, þar af þrjár frá Samfylkingu.

Ráðherrar Sjálfstæðisflokksins verða Geir H. Haarde forsætisráðherra, Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir menntamálaráðherra, Árni M. Mathiesen fjármálaráðherra, Björn Bjarnason dóms- og kirkjumálaráðherra, Einar K. Guðfinnsson sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra og Guðlaugur Þór Þórðarson heilbrigðisráðherra.

Frá Samfylkingunni eru ráðherrar þau Ingibjörg Sólrún Gísladóttir utanríkisráðherrra, Jóhanna Sigurðardóttir félagsráðherra, Össur Skarphéðinsson iðnaðarráðherra, Þórunn Sveinbjarnardóttir umhverfisráðherra, Björgvin B. Sigurðsson viðskiptaráðherra og Kristján L. Möller samgöngumálaráðherra.

Nokkrar tilfærslur verða á verkefnum milli ráðuneyta, t.d. færast ferðamál frá samgönguráðuneyti til iðnaðarráðuneytis og þar verða byggðamálin einnig. Einnig færast verkefni frá heilbrigðisráðuneyti til félagsmálaráðuneytis sem í gær var kallað velferðarráðuneyti. Ekki er vitað hvort sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytin verða sameinuð í eitt, þótt ráðherrann sé sá sami.